En meðal þeirra sem eru á samningi hjá DC Shoes eru bandaríski snjóbrettakappinn Tavis Rice og Norðmaðurinn Torstein Horgmo, uppáhaldssnjóbrettakappi Benna. „Hann gerði tveggja ára samning sem er „semi-pro“, hálfatvinnumannssamningur. Þá er hann launaður, þó það sé ekki mikið og fær ferðapening, vörur og svona.“
Benni byrjaði á snjóbretti þegar hann var um fimm ára gamall en áhugann fékk hann frá eldri bróður sínum. Faðir hans segist halda sig á skíðunum, á þeim byrjaði Benni en skipti fljótlega yfir á snjóbretti. „Mér finnst maður bara miklu frjálsari, maður getur gert miklu meira,“ segir Benni.

„Á síðustu tveimur árum er hann búinn að vera nefndur sem einn af sex bestu í sínum aldursflokki á snjóbretti hjá þessum tímaritum sem eru að telja upp hverjir eru framtíðarstjörnur á snjóbretti,“ segir pabbinn sem er að vonum stoltur af stráknum. Hann segir soninn ekki kippa sér mikið upp við athyglina. „Ég held að það megi alveg segja að hann sé á meðal þeirra bestu í heiminum í dag í sínum aldursflokki. Til staðfestingar á því þá setti Redbull hann á heimasíðunna sína tiltölulega nýlega og nefndi hann fyrstan af þremur sem væru að koma á eftir þessum sem eru bestir í dag.“
Benni hefur verið talsvert á faraldsfæti og hefur meðal annars ferðast til Austurríkis, Ítalíu, Frakklands og Kanada.
„Við erum búin að vera síðustu þrjá vetur með hann á ferðinni, frá því hann var sjö ára,“ segir Friðbjörn, en Benni hefur keppt á fjölda móta hér og erlendis og þann tólfta til fjórtánda mars tekur hann þátt í Icelandic Winter Games á Akureyri í annað sinn. Í fyrra lenti hann í öðru sæti í flokki fimmtán ára og yngri, þá níu ára gamall. „Maður stefnir náttúrulega alltaf að því,“ segir Benni sjálfur, pollrólegur þegar hann er spurður að því hvort hann stefni á fyrsta sætið í ár.