Íslenski boltinn

Jóhannes: Við teljum þetta vera mikinn feng

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hollendingurinn Siers ásamt þjálfurum ÍBV-liðsins.
Hollendingurinn Siers ásamt þjálfurum ÍBV-liðsins. Vísir/Pjetur
„Við teljum þetta vera mikinn feng. Við erum mjög ánægðir með það sem við höfum séð til hans. Hann hefur reynslu og gæði sem ég tel að muni nýtast okkur mjög vel,“ segir Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV, en hann fékk nýjan leikmann í sitt lið í gær.

Þá samdi hinn 27 ára gamli Hollendingur Mees Junior Siers við félagið til tveggja ára. Þetta er miðjumaður sem var síðast á mála hjá SönderjyskE í Danmörku. Hann á að baki leiki með yngri landsliðum Hollands.

„Honum leið vel þessa daga sem hann var hjá okkur um daginn og vildi prófa eitthvað nýtt. Hann vildi komast í nýtt umhverfi og leit á þetta sem spennandi tækifæri.“

ÍBV er búið að semja við nokkra íslenska leikmenn og svo eru tveir Norðmenn einnig á leið í herbúðir félagsins. Þjálfarinn er mjög sáttur við þá styrkingu sem hann hefur fengið.

„Við höfum verið með menn aðeins í meiðslum og hópurinn ekki alveg orðinn eins og hann á að vera. Ég er að vonast til þess að í þessari viku verðum við komnir með allan hópinn,“ segir Jóhannes en hann á ekkert endilega von á því að ÍBV bæti mikið við sig.

„Síðustu púslin eru að detta inn hjá okkur. Við sjáum til er nær dregur tímabili hvort við þurfum á meiri styrkingu að halda.“

Með ráðningu Jóhannesar var lagt af stað í þriggja ára verkefni sem miðar að því að byggja upp öflugt lið sem á að ná betri árangri en undanfarin ár. Hver eru markmiðin á fyrsta árinu?

„Þau eru ekki enn komin á hreint hjá okkur. Við klárum þá leiki sem eftir eru og leggjum svo línurnar þegar stutt er í mót. Þetta er búið að vera þrælgaman og það hefur verið frábærlega tekið á móti mér. Það er hugur í okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×