Innlent

Reyðarfirði hrósað á síðu CNN

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Reyðarfjörður er nefndur í grein CNN, en greininni fylgir mynd af Seyðisfirði.
Reyðarfjörður er nefndur í grein CNN, en greininni fylgir mynd af Seyðisfirði. Mynd/Skjáskot CNN
Á vef CNN eru taldir upp tíu eftirsóknarverðir staðir til að heimsækja áður en þeir taka breytingum og þar á meðal er Reyðarfjörður. Á frummálinu nefnist greinin: 10 places to see before they're changed forever.

Ljóst er að fjörðurinn hefur fengið dágóða kynningu vegna sjónvarpsþáttanna Fortitude, sem voru að miklu leyti teknir upp á Reyðarfirði.

Í helstu hlutverkum í þáttunum eru danska leikkonan Sofie Gråbøl, Stanley Tucci og Michael Gambon. Minnst er á álverið, gamla herstöð og Íslenska stríðsárasafnið sem sé eitt helsta aðdráttarafl bæjarins.

Athygli vekur að þótt Reyðarfjörður er nefndur í grein CNN, fylgir greininni mynd af Seyðisfirði.

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson, segir engan ríg á milli fjarða fagnar ferðamönnum sem vilja koma við á Austfjörðum í sumar. „Nú eru þættirnir farnir að vekja athygli og það munu örugglega margir heimsækja Reyðarfjörð í sumar. Við munum taka vel á móti öllum þeim sem vilja koma í góða veðrið sem verður í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×