Lífið

Fimmtán þúsund krónur í klinki

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Óli Hjörtur Ólafsson er einn af skipuleggjendum Íslandsmeistaramótsins í Donkey Kong.
Óli Hjörtur Ólafsson er einn af skipuleggjendum Íslandsmeistaramótsins í Donkey Kong. Vísir/Stefán
Í kvöld fer fram Íslandsmeistaramót í tölvuleiknum Donkey Kong á spilastofunni og leikfangaversluninni Fredda í Ingólfsstræti 2, en til stendur að mótið verði árlegur viðburður.

Talsverður fjöldi hefur skráð sig til leiks og mögulegt er að skrá sig til þátttöku allt þar til mótið hefst. „Það er búin að vera mjög fín skráning,“ segir Óli Hjörtur Ólafsson, starfsmaður Fredda og einn af skipuleggjendum mótsins.

„Þeir sem eru búnir að vera að koma á Fredda að spila Donkey Kong eru að taka þátt og svo einhverjar gamlar kempur,“ en hann segir Donkey Kong-kassann vinsælan þrátt fyrir að leikurinn sé erfiður.

„Hann er ekkert sérstaklega auðveldur, sko, ég get til dæmis ekki spilað hann,“ segir Óli hress.

Í leiknum tekur spilarinn hlutverk Marios og þarf að beita öllum brögðum til þess að bjarga prinsessunni úr klóm apans, Donkey Kong, sem heldur henni fanginni.

Leikjakassinn kom út árið 1981 og markaði upphaf farsæls ferils Marios sem tölvuleikjakarakters. „Mario varð frægur þarna,“ segir Óli og tekur fram að hann lofi góðu stuði á mótinu sem hefst klukkan sex á Fredda, en meðal verðlauna eru fimmtán þúsund krónur í klinki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×