Innlent

Kynferðisbrotamál á Selfossi: Telur sig hafa framið brotið í svefni

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins segist konan ekki muna eftir atvikinu þar sem hún hafi verið sofandi.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins segist konan ekki muna eftir atvikinu þar sem hún hafi verið sofandi. Vísir/Getty
Í vikunni verður farið fram á mat frá geðlækni í kynferðisbrotamáli þar sem kona er ákærð fyrir kynferðisbrot gegn annarri konu.

Atvikið átti sér stað í heimahúsi á Selfossi í ágúst á síðasta ári. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ber hin ákærða fyrir sig að hafa verið sofandi þegar atvikið átti sér stað og muni þess vegna ekki eftir því.

Lögmaður hinnar ákærðu, Kristrún Elsa Harðardóttir, staðfestir að í vikunni verði lögð fram matsbeiðni í Héraðsdómi, þar sem farið verður fram á að geðlæknir geri mat á því hvort konan þjáist af kynferðislegri svefnröskun eða sexsomnia.

Um er að ræða viðurkennda svefnröskun sem lýsir sér þannig að manneskja tekur þátt í eða viðhefur kynferðislegar athafnir í svefni og man ekki eftir því. Oft bitnar það á þeim sem deilir rúmi með viðkomandi þar sem sá er ekki endilega samþykkur gjörðunum. Röskunin er sjaldgæf og algengari meðal karla heldur en kvenna.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur ekki verið farið fram á slíkt mat áður hérlendis. Hins vegar eru fordæmi fyrir því erlendis, meðal annars í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi og Kanada. Dæmi eru um að sýknað hafi verið í kynferðisbrotamálum þar sem viðkomandi hefur verið haldinn þessari röskun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×