Skoðun

Línur skýrast í finnskum stjórnmálum eftir kosningarnar

Borgþór S. Kjærnested skrifar
Óumdeilanlegur sigurvegari kosninganna er Miðflokkurinn (gamli bændaflokkurinn) sem bætti við sig 14 þingsætum, en þó minna en spáð hafði verið.

30% kjósenda sátu heima og sérfræðingar segja að stór hluti þeirra hafi verið kjósendur Miðflokksins, sem af einhverjum ástæðum fóru ekki á kjörstað. Einnig má halda því fram að Timo Soini og Sann-Finnarnir hafi verið í hópi sigurvegaranna, töpuðu aðeins einu þingsæti og mun minna en spáð hafði verið. Græningjar unnu mikinn sigur, juku þingmannafjöldann úr tíu í fimmtán og urðu helmingi fleiri en arftakar gamla kommúnistaflokksins, Vinstra bandalagið, sem töpuðu tveimur sætum og eru með tólf þingsæti.

Formaður Miðflokksins er nú með sterkt umboð til stjórnarmyndunar. Hann mun fækka ráðherrum í tólf úr átján. Grundvöllur nýrrar stjórnar verður „sterkt umboð, traust milli manna, og stefna sem ekki verður margra blaðsíðna doðrantur“ sagði Juha Sipilä í viðtali við fjölmiðla þegar úrslit lágu fyrir. Líklegasta samsetningin verður, auk Miðflokksins, hægri flokkur Alexanders Stubb og Sann-Finnarnir með Timo Soini sem annaðhvort fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra. Væntanlega heldur sænski þjóðarflokkurinn, með sína níu þingmenn, áfram í ríkisstjórn, en hann hefur verið í ríkisstjórn frá 1979. Á bak við þá stjórn stæðu 124 þingmenn af 200. Einnig er mögulegt að í einhverjum einstökum málum verði unnið yfir flokkamörkin.

Juha Sipilä lofaði að skapa 200.000 ný störf á kjörtímabilinu. Samtök atvinnurekenda hafa bent á að svo marga er ekki að finna á finnskum vinnumarkaði, sem mundi leiða til aukins innflutnings á fólki, sem Sann-Finnarnir eru ekki sérlega hrifnir af. Juha Sipilä er lýst sem reynslulausum stjórnmálamanni þegar kemur að alþjóðamálum. Í kosningabaráttunni vísaði hann til góðra tengsla sinna í alþjóðlegum viðskiptaheimi, en það þarf meira til að áliti stjórnmálaspekinga ef Finnland á að sinna stöðu sinni á alþjóðavettvangi.

Mikið veltur á formanni Miðflokksins. Hann getur myndað sterka stjórn með þátttöku hægri flokksins og Alexanders Stubb. Hins vegar munu almennir flokksmenn Miðflokksins mæla með samstarfi við jafnaðarmenn, Sann-Finnana og Sænska þjóðarflokkinn, sem yrði þá ríkisstjórn með 130 þingmenn af 200.

Að mati stjórnmálafræðinga standa Finnar frammi fyrir miklum breytingum á velferðarkerfinu, sem voru ræddar á síðasta þingi, ásamt skuldsetningu þjóðarinnar. Því er ekki óhugsandi að Juha Sipilä leggi áherslu á samstarf við jafnaðarmenn og sleppi hægriflokknum.

Finnar vilja sjá nýja flokka sem vinna kosningasigra taka þátt í ríkisstjórn og sýna hvers þeir eru megnugir þegar allt kemur til alls. Finnski sendiherrann í Reykjavík kallaði þetta „Kiss to death“ aðferðina á fundi í Norræna húsinu nýlega. Ef til vill er þetta framtíð Timos Soini á nýju kjörtímabili.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×