Skoðun

Bruninn mikli 1915

Jón Viðar Matthíasson skrifar
Öld er liðin frá einum mesta eldsvoða á Íslandi, brunanum mikla í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt 25. apríl 1915.

Tveir menn létu lífið, tólf hús stóðu í ljósum logum og flest þeirra brunnu til grunna. Eldsvoðinn hafði mikil áhrif á bæjarbúa á sínum tíma, sem og á skipulagsmál bæjarins, þróun brunavarna og aðbúnað slökkviliðsins.

Reykjavíkurborg og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins munu minnast brunans mikla með sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 24.–28. apríl og viðburðum við Austurvöll laugardaginn 25. apríl.

Eldurinn kviknaði á Hótel Reykjavík, stóru og glæsilegu timburhúsi við Austurstræti 12.

Kvöldið fyrir brunann var haldið brúðkaup Jósephinu Zoëga og Clifford Hobbs á Hótel Reykjavík. Mikið var um dýrðir og stóð veislan fram á nótt. Síðustu gestir voru að halda til síns heima þegar eldsins varð vart, en hann breiddist hratt út og barst fljótlega í næstu hús. Alls kviknaði í átta húsum við Austurstræti og fjórum við Hafnarstræti, auk skúra. Minnstur varð skaðinn í pósthúsinu. Ingólfshvoll í Hafnarstræti 14 brann að hluta og veggir og gólf Landsbankahússins stóðu eftir. Önnur hús voru rústir einar innan fárra klukkustunda. Um 14.000 manns bjuggu í Reykjavík og var áfallið því mikið þegar svo mörg hús í hjarta bæjarins hurfu, heimili og vinnustaðir fjölda fólks.

Mennirnir sem létu lífið voru Runólfur Steingrímsson, vinnumaður á Hótel Reykjavík, sem hafði gengið snemma til náða á hótelinu, og Guðjón Sigurðsson, eigandi Ingólfshvols, sem lést úr reykeitrun í húsi sínu.

Tveir menn fórust í brunanum mikla sem breiddist út frá Hótel Reykjavík við Austurstæti.MYND/MAGNÚS óLAFSSON
Ýmsar úrbætur urðu í brunamálum bæjarins fyrir brunann mikla. Vatnsveita var tekin í gagnið 1909, brunasími var lagður um bæinn 1911 og ný slökkvistöð var tekin í notkun 1912. Ný reglugerð um brunamál var samþykkt fyrir Reykjavík árið 1913. Þá voru tveir starfandi varðmenn í hinni nýju slökkvistöð við Tjarnargötu og 36 fastir slökkviliðsmenn í útkallsliði, sem hringt var út með brunasíma eftir þörfum. Varaliðið, sem í voru allir verkfærir karlar í bænum aðrir en embættismenn, var kallað út með lúðrum.

Mörgu var þó ábótavant þegar stóra kallið kom. Búnaður slökkviliðsins var fábreyttur. Slöngur höfðu margar sprungið af því að þorna upprúllaðar um veturinn og frost hafði skemmt nokkra brunahana í miðbænum. Allt var unnið með handafli, hvort sem það snerist um að draga níðþunga slönguvagna á eldstað eða knýja vatnsdælurnar. Öflug véldæla í eigu einkaaðila var tekin traustataki og notuð við slökkvistörfin. Megináhersla varð fljótlega að reyna að hefta útbreiðslu eldsins til austurs og vesturs og tókst það að lokum.

Við brunann mikla varð ljóst að Slökkvilið Reykjavíkur yrði að vera betur tækjum búið til að takast á við eldsvoða af þvílíkri stærðargráðu. Bærinn keypti véldæluna sem notuð hafði verið við slökkvistörf í brunanum, nýjan sjálfheldustiga og fljótlega aðra véldælu. Turn var byggður við stöðina til að þurrka slöngur. Árið 1920 voru fyrstu þrír slökkvibílarnir keyptir og fyrsti sjúkrabíllinn var tekinn í notkun ári síðar. Varðmönnum á slökkvistöðinni í Tjarnargötu fjölgaði í sjö á næstu árum og áhersla var lögð á kunnáttu í meðferð véla og bifreiða.

Timburhúsum í Reykjavík voru settar þröngar skorður í kjölfar brunans, bæði varðandi stærð og fjarlægðir milli húsa. Það varð til þess að steinsteypan tók yfir sem helsta byggingarefnið. Bruninn varð líka til þess að flýta fyrir stofnun Rafmagnsveitu Reykjavíkur til að leysa gasið af hólmi og byggingu vatnsgeymis á Rauðarárholtinu.

Það má segja að við þennan atburð hafi bærinn byrjað að breytast í borg. Reykjavík var komin í hóp stórborga sem höfðu upplifað stórbruna. Ásýnd bæjarins breyttist þegar steinsteypt stórhýsi risu í stað timburhúsanna sem prýtt höfðu helstu viðskipta- og verslunargötur bæjarins, eflaust ýmsum til ama bæði þá og síðar. En um leið var betur hugað að öryggi íbúanna og eigna þeirra með bættum brunavörnum og aukinni meðvitund um nauðsyn þeirra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×