Innlent

Bagalegur gagnaskortur

Jón Bjarni Gunnarsson
Jón Bjarni Gunnarsson
Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það bagalegt hve lítið er til af gögnum um framkvæmdir á byggingamarkaðnum. Samtök iðnaðarins hafa sjálf haldið utan um framkvæmdir, hve mörg hús eru í byggingu hverju sinni. Það gera þau með því að keyra um og telja einfaldlega byggingarstaði. Jón Bjarni segir þessa aðferð vissulega ekki gallalausa og í henni geti verið skekkjur, en þó sé samfella í henni þar sem sömu aðferðafræði er beitt ár eftir ár. Hann kallar eftir úrbótum hjá opinberum aðilum.

„Þetta er náttúrulega hagstærð sem skiptir allt þjóðfélagið gríðarlega miklu mál. Þetta skiptir okkur sem eigum húsnæði máli, þetta skiptir leigjendur máli, því leiguverð ræðst töluvert mikið af því hvað eignin kostar, þetta skiptir sveitarfélögin máli, þau eru að skipuleggja land, þetta skiptir verktakana okkar máli þegar þeir eru að ákveða hvað þeir eiga að byggja, þetta skiptir lánastofnanir máli þegar þær lána og skiptir máli hvað varðar alla hagtöluspá og annað slíkt, þetta er nokkuð stór stærð inni í því. Þess vegna er mjög dapurt að þetta séu kannski bestu tölurnar sem eru til, að telja þetta bara svona sjónrænt.“

Jón Bjarni segir einfalt mál að kippa þessu í liðinn.

„Það er hægt að laga þetta, en það vantar bara örlitla peninga í það. Þjóðskrá, eða Fasteignamatið, gæti gert þetta. Þá væri það gert með rafrænum hætti, þar sem byggingarfulltrúarnir eiga að skrá allar úttektir á byggingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×