Lífið

Festa andlit Reykjanesbæjar á filmu

Guðrún Ansnes skrifar
Björgvin tekur myndirnar en segir allan hópinn standa saman að vinnslu verkefnisins.
Björgvin tekur myndirnar en segir allan hópinn standa saman að vinnslu verkefnisins.
Björgvin Guðmundsson fer fyrir verkefninu „Andlit bæjarins“, sem ljósmyndaklúbburinn Ljósop í Reykjanesbæ stendur fyrir um þessar mundir. „Við byrjuðum á þessu í janúar og þá bara smátt. Fórum að mynda flott fólk, og svo fór þetta að vinda upp á sig. Áður en við vissum af vorum við farin að bjóða öllum í myndatöku,“ segir Björgvin.

Til stendur að smella af tvö hundruð andlitsmyndum af Keflvíkingum, núverandi,brottfluttum og aðfluttum. „Við viljum fá myndir sem endurspegla þverskurð samfélagsins hérna suður með sjó. Við myndum þekkt andlit og óþekkt, gömul, ung og bara alla.“

Björgvin segir fólk ekki feimið við að mæta á svæðið og láta smella af sér, þvert á móti. „Nú þegar erum við komin með um það bil hundrað og áttatíu manns,“ bendir Björgvin á og segir kipp hafa komið í aðsóknina í kjölfar auglýsingar á Fésbókinni. „Þá fóru brottfluttir að sækja í sig veðrið og vildu vera með, svona gallharðir Keflvíkingar,“ segir Björgvin. Mun afraksturinn svo sýndur á Ljósanótt, einni stærstu menningarhátíð Reykjanesbæjar ár hvert.

Ljósop hefur verið starfandi í bænum síðan árið 2006 og segir Björgvin nokkuð ljóst að mikil gróska eigi sér stað í Reykjanesbæ þegar kemur að ljósmyndun. „Við erum í kringum tuttugu manns sem komum saman og ræðum ljósmyndun, skiptumst á ráðum og lærum hvert af öðru. Þetta er ofsalega gaman,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×