Innlent

Mótmæla hrefnuveiðum við Faxaflóa

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hvalaskoðunarsamtökum Íslands er umhugað um velferð dýranna.
Hvalaskoðunarsamtökum Íslands er umhugað um velferð dýranna. mynd/specialtours
„Faxaflói er eitt mikilvægasta hvalaskoðunarsvæði landsins,“ segir Gísli Ólafsson, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, en samtökin mótmæla harðlega áframhaldandi veiðum á hrefnu á svæðinu. Samtökin hafa meðal annars áhyggjur af því að hvalatalningar Hafrannsóknastofnunar síðustu ár hafa sýnt fram á mikla fækkun hrefnu.

„Þessar veiðar hefjast þrátt fyrir þverpólitískan vilja borgarstjórnar Reykjavíkur um stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóa frá desember síðastliðnum og samhljóðandi niðurstöðu ráðgefandi nefndar sjávarútvegsráðherra um stefnumótun um vernd og veiðar á hvölum sem lögð var fram í maí 2013,“ segir Gísli.

„Venjulega hafa veiðar byrjað í maí og er það á sama tíma og ferðaþjónustan er alveg í blóma,“ segir María Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands, og bætir við að samtökin vilji alls ekki að ferðamenn verði vitni að veiðunum. „Hrefnuveiðimenn eru held ég alveg sammála okkur í því að ferðamenn sjái ekki veiðarnar en oft eru þó einungis tvær sjómílur á milli bátanna.“

Samtökunum er einnig umhugað um velferð dýranna. „Ljóst er að veidd hrefna verður hvorki veidd né sýnd aftur,“ segir Gísli og bætir við að ábyrg hvalaskoðun byggist hins vegar á því að nýta megi auðlindina margsinnis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×