Innlent

Sjötíu og tvö þúsund ferðamenn í apríl

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Af ferðamönnum í apríl voru Bretar fjölmennastir.
Af ferðamönnum í apríl voru Bretar fjölmennastir. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Tæplega sjötíu og tvö þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl síðastliðnum samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Það eru rúmlega tólf þúsund fleiri en í apríl á síðasta ári og nemur aukningin 20,9 prósentum milli ára.

Aukning hefur verið milli ára alla fjóra mánuði frá áramótum eða 34,5 prósent í janúar, 34,4 prósent í febrúar og 26,8 prósent í mars.

Af ferðamönnum í apríl voru Bretar fjölmennastir eða 26,4 prósent af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn eða 15,2 prósent af heildarfjölda. Þar á eftir fylgdu Norðmenn, Danir og Þjóðverjar.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára en 3.269 fleiri Bretar komu í apríl í ár en í sama mánuði í fyrra og 3.179 fleiri Bandaríkjamenn. Bretar og Bandaríkjamenn báru uppi ríflega helmings aukningu ferðamanna í apríl milli ára.

Þá hafa ferðamenn í aprílmánuði nærri fjórfaldast frá árinu 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×