Erlent

Ringulreið í samgöngum vegna verkfalla í Þýskalandi

jón hákon halldórsson skrifar
Starfsmenn lestarfyrirtækisins Deutsche Bahn hafa ítrekað farið í verkfall undanfarna mánuði, með verulegu tjóni fyrir þýska hagkerfið.
Starfsmenn lestarfyrirtækisins Deutsche Bahn hafa ítrekað farið í verkfall undanfarna mánuði, með verulegu tjóni fyrir þýska hagkerfið. NordicPhotos/afp
Mikil röskun varð á samgöngum í Þýskalandi í gær eftir að verkfall lestarstjóra hófst. Fjölmörgum lestarferðum, bæði styttri ferðum og lengri, var frestað.

Claus Weselsky, formaður GDL, verkalýðsfélags lestarstjóra, gaf ekkert upp um það hvenær verkfallinu lýkur en hann sagði að það myndi allavega vara í fimm daga.

Verkalýðsfélagið hefur boðað röð verkfalla til að krefjast fimm prósenta launahækkunar fyrir þá 20 þúsund lestarstjóra sem eru í félaginu og styttri vinnuviku. Verkalýðsfélagið krefst þess líka að fá að semja fyrir hönd annarra starfsmanna á lestum, til dæmis veitingastarfsfólks.

Tvö hundruð þúsund manns starfa hjá lestarfélaginu Deutsche Bahn. Fyrirtækið hefur boðið 4,7 prósenta launahækkun og eingreiðslu upp á 1.000 evrur, eða 148 þúsund krónur. Aftur á móti samþykkir fyrirtækið ekki að verkalýðsfélagið semji fyrir aðra starfsmenn á lestum.

Verkfallið sem hófst í gær var hið níunda sem skellur á síðastliðna ellefu mánuði og kemur í kjölfar fimm daga verkfalls fyrr í maí. Það var lengsta verkfall í 21 árs sögu Deutsche Bahn.

Talið er að 5,5 milljónir manna ferðist daglega með lest í Þýskalandi. Hagfræðingar telja að verkfallið fyrr í mánuðinum hafi kostað þýska hagkerfið 750 milljónir evra, eða 111 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×