Skoðun

Er ég mesti kjáni Íslandssögunnar?

María Björk Steinarsdóttir skrifar
Ég fylgdi manninum mínum í sérnám til Noregs fyrir næstum 4 árum síðan, en til stóð að vera hér í 3-4 ár. Ég er líffræðingur með 6 ára menntun og um 14 ára starfsreynslu að baki.

Í síðasta mánuði rakst ég á spennandi atvinnuauglýsingu á Íslandi, sótti um og fékk starfið. Vá hvað ég var glöð og heppin! Í atvinnuviðtalinu var ég vöruð við að launin væru ekki upp á marga fiska en spennan við að flytja aftur heim yfirgnæfði þann hluta viðtalsins.

Grein sem birtist á Vísi 18. maí síðastliðinn (Náttúrufræðingar á LSH, Una Bjarnadóttir) kom mér svo „niður á jörðina“ aftur. Í starfi mínu hér í Noregi sem ófagmenntaður aðstoðarmaður á bæjarreknum leikskóla fæ ég nefnilega 499.086 krónur í heildarlaun og útborgað 321.106 krónur. Í mínu tilvonandi nýja starfi á Landspítala þar sem háskólamenntunar er krafist eru heildarlaun samkvæmt launatöflu um 334.485 krónur samkvæmt mínum björtustu vonum. Rosalegt vægast sagt.

Í samanburði á launum á Íslandi og í Noregi er alltaf sagt „já en það er nú allt annað svo miklu dýrara í Noregi“. Þrátt fyrir það safnast peningar á okkar bankareikning hér í Noregi, og þá meina ég safnast þannig að það er virkilega hægt að leggja fyrir fyrst og kaupa svo! Og ég tala nú ekki um ferðast og njóta lífsins.

Nú styttist í að ég byrji í nýrri vinnu… ef verkfall leysist. Ég er spennt en spyr sjálfa mig á hverjum degi hvort ég sé hugsanlega mesti kjáni Íslandssögunnar eins og vinir mínir á Íslandi segja mér? Sé bara litið til ósanngjarnra launa fyrir störf sem krefjast háskólamenntunar, er svarið hiklaust já, svona lætur maður ekki bjóða sér.

Fréttir undanfarið um aukinn fólksflótta frá Íslandi að nýju, úff og já spillingin í stjórnmálunum, virðingarleysi fyrir umhverfinu okkar og fólkinu í landinu og græðgi bankanna svo fátt sé nefnt eru ekki til að bæta ímynd mína við heimflutning.

En kjáninn vill heim til fjölskyldunnar.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×