Lífið

Ragnheiður í skiptum fyrir aðra Ragnheiði

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Gísla Pálma í bol sem hann gerði sjálfur.
Hér má sjá Gísla Pálma í bol sem hann gerði sjálfur.
Rapparinn Gísli Pálmi heldur útgáfutónleika sína í Gamla bíói á fimmtudaginn og í tilefni af því hefur hann sjálfur búið til boli sem verða til sölu á tónleikunum. „Ég vildi hafa þetta persónulegt, allt í sambandi við þessa tónleika. Ég vann sjálfur að þessum bolum, að plaggötum og límmiðum. Ég hef til dæmis sjálfur hengt upp auglýsingar fyrir tónleikana. Ég hef líka notið góðs stuðnings vina minna í Glacier Mafia,“ útskýrir Gísli.

Eins og sjá má er merki Glacier Mafia á bolunum og handþrykkti Gísli sjálfur merkið á þá. Ragnheiður Jónsdóttir, prófastur úr Vatnsmýri, sem er líklega þekktust meðal almennings fyrir að prýða fimm þúsund króna seðilinn, er greinileg fyrirmynd merkis Glacier Mafia. „Mér finnst bara mikilvægt að maður geri svona hluti sjálfur og þurfi ekki að treysta á einhver fyrirtæki að gera svona fyrir sig. Allt sem við höfum gert fyrir þessa tónleika er handgert, af mér og mínum. Ég fékk til dæmis gamla „graff-krúið“ mitt, CMF, til þess að hjálpa mér við vinnuna á lógunum.“

Undirbúningur fyrir útgáfutónleikana er nú á fullu. „Þetta verða lengstu tónleikar sem ég hef haldið,“ útskýrir Gísli og bætir við: „Ég mun flytja plötuna í heild sinni og með því.“ Plata Gísla Pálma, sem ber einfaldlega titilinn Gísli Pálmi, hefur vakið gríðarlega athygli síðan hún kom út í síðasta mánuði. Platan sló sölumet hjá Smekkleysu og hefur fengið glimrandi dóma. Beðið er eftir útgáfutónleikunum með eftirvæntingu. Auk Gísla Pálma munu Egill Tiny og Sölvi Blöndal úr Quarashi, sveitirnar Gervisykur og Vaginaboys og söngvarinn Sutla Atlas koma fram.

Bolirnir sem verða til sölu á tónleikunum eru gæðabolir, eins og Gísli útskýrir. „Við ákváðum að kaupa inn dýrari boli. Við tókum „fitted boli“ sem eru síðari og flottari. Þetta endist líka miklu betur en þessir ódýru bolir sem prentað er á. Hérna, finndu efnið,“ segir Gísli og réttir blaðamanni einn bol. Óhætt er að staðfesta að bolurinn sé úr gæðaefni sem var mjúkt viðkomu. Og þegar blaðamaður spyr Gísla Pálma um verðið á bolnum er svarið stutt og einfalt: „Ragnheiður í skiptum fyrir Ragnheiði.“ Tónleikarnir verða í Gamla bíói á fimmtudag og er húsið opnað klukkan 21. Enn er hægt að fá miða á vefsíðunni tix.is og í Smekkleysu á Laugavegi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×