Skoðun

Enn er ójafnt skipt

Árni Páll Árnason skrifar
Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Fyrir margt almennt launafólk eru aðgerðirnar jákvæðar og hrósa ber verkalýðshreyfingunni fyrir að knýja fram skárri stjórnarstefnu.

Það er gott að sjá löngu tímabærar skattalækkanir til meðaltekjuhópa.

Við höfum rekið á eftir því að gerðir fylgi orðum í húsnæðismálum og nú er boðuð uppbygging félagslegs húsnæðis, niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar lágtekjufólks og aukning húsaleigubóta, þótt meira þurfi til.

En eins og alltaf hjá þessari ríkisstjórn er ójafnt skipt.

Sá helmingur þjóðarinnar sem er í neðri hluta tekjustigans fær afar lítið í sinn hlut af skattkerfisbreytingunum. Einstaklingur með 700.000 krónur fær rúmlega 11.000 króna hækkun á ráðstöfunartekjum á mánuði samanborið við um 1.000 króna hækkun þess sem er með 300.000 krónur.

Ráðstöfunartekjur fólks á lágmarksbótum almannatrygginga hækka um 690 krónur á mánuði. Segi og skrifa 690 krónur.

Þá hefur ríkisstjórnin staðfest að aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir fái EKKI hækkun í 300 þúsund krónur á mánuði, eins og fólk á vinnumarkaði. Þrátt fyrir að lágmarksbætur almannatrygginga séu undir 200 þúsund krónum á mánuði mun ríkisstjórnin ekki beita sér fyrir því að þær hækki til samræmis við hækkun lægstu launa.

Mikill fjöldi aldraðra og öryrkja hefur ekki meira en rétt um 200 þúsund krónur til framfærslu á mánuði, fyrir skatt. Það er fullkomlega ófært, ef það er orðið sammæli í landinu að 300 þúsund krónur á mánuði sé lágmarksviðmið um ásættanleg laun. Í kjölfar kjarasamninga árið 2011 voru bætur látnar taka breytingum til samræmis við hækkun lægstu launa. Það er fordæmi sem vert væri að horfa til.

Það voru margar aðrar betri leiðir tiltækar. Ein hefði verið að nýta áfram kosti þriggja þrepa skattakerfis. Önnur að koma á stighækkandi persónuafslætti þannig að lágtekjufólk og lífeyrisþegar hefðu fengið úrlausn og meðaltekjufólk sanngjarna skattalækkun. Það hefði verið mun betri kostur en sú niðurstaða sem orðin er.

Við getum ekki búið í samfélagi þar sem þeir betur stæðu njóta einir kjarabóta en aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir eru skildir eftir.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×