Fótbolti

Ekki unnið í júní í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki gegn Möltu.
Eiður Smári fagnar marki gegn Möltu. Vísir
Íslenska karlalandsliðið vann síðast mótsleik í júnímánuði fyrir rétt rúmlega tíu árum og nú er að sjá hvort strákunum okkar takist að binda enda á þá löngu bið á móti Tékkum á Laugardalsvellinum í kvöld.

Ísland vann vináttulandsleik á móti Eistlandi fyrir ári en tapaði 4-2 á móti Slóvenum í júní 2013 í hinum leiknum sem liðið hefur spilað undir stjórn Lars Lagerbäck í sjötta mánuði ársins.

Síðasti sigurleikur íslenska landsliðsins í leik í undankeppni í júnímánuði var á móti Möltu 8. júní 2005. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Tryggvi Guðmundsson og Veigar Páll Gunnarsson skoruðu mörk íslenska liðsins í þeim leik.

Íslenska liðið „náði“ jafntefli á móti Liechtenstein 2. júní 2007 en hefur síðan tapað fimm mótsleikjum í röð í júní og markatalan í þessum fimm leikjum er -12 (3-15).

Ísland á þó góðar minningar frá leikjum í júní því liðið vann meðal annars tvo mótsleiki í júní fyrir tólf árum, vann Austur-Þjóðverja, 2-1 5. júní 1975 og vann 4-3 sigur á Svíum á Melavellinum 29. júní 1951.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×