Lífið

Of Monsters and Men í 1. sæti

Gunnar Leó Pálsson skrifar
1. sæti Of Monsters and Men er að gera góða hluti.
1. sæti Of Monsters and Men er að gera góða hluti.
Önnur breiðskífa Of Monsters and Men, Beneath The Skin, náði efsta sæti á metsölulista allra platna á iTunes fyrr í gær. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslensk hljómsveit kemst í fyrsta sæti heildarlista iTunes. Sveitin er í harðri samkeppni við hljómsveitina Muse sem gaf út plötuna Drone sama dag og Omam.

„Ég held alveg örugglega að þetta hafi ekki gerst. Að önnur plata listamanns gangi svona vel sýnir að listamaðurinn er á mikilli siglingu. Of Monsters and Men gætu alveg orðið jafn stór og Björk með þessu áframhaldi. Þau eru búin að marka þá braut sem þau eiga að feta,“ segir Jónatan Garðarsson tónlistarsérfræðingur.

„Hljómsveitir eru lengi að safna efni í sína fyrstu plötu en oft þegar önnur platan er í vinnslu er sveitin á þvælingi um allan heim að fylgja fyrri plötunni eftir og nær því kannski ekki að smíða nógu góð lög. Ef plata númer tvö gengur svona vel og er á sama kalíberi þá eru þau komin á þessa hæð og bjart fram undan,“ bætir Jónatan við.

Fyrr í vikunni kom sveitin fram í tveimur af stærstu þáttum Bandaríkjanna, Good Morning America á ABC og The Tonight Show with Jimmy Fallon, og fluttu þau lagið Crystals. Sveitin er nú á heljarinnar tónleikaferðalagi.

Þá geta aðdáendur Of Monsters and Men nú útbúið sína eigin útgáfu af plötuumslagi Beneath The Skin á heimasíðu sveitarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×