Lífið

Litabók sem ætluð er fyrir fullorðna

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Vísir/Gva
Í dag kemur út litabókin Leynigarður sem ætluð er fullorðnum.

Myndskreytingarnar eru af trjám, blómum, skordýrum og fiskum svo fátt eitt sé nefnt og eru talsvert fíngerðar og því þýðir lítið annað en að vanda til verka þegar litað er.

"Maður þarf að vanda sig mjög mikið og nota fíngerða blýanta eða tússpenna. Myndirnar eru þannig að þú getur líka ákveðið að lita mjög lítið og það getur verið mjög fallegt. Það er ekkert sjálfgefið að þú þurfir að lita alla myndina,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, en hún er ein af þeim sem á bókina.

Leynigarður var upphaflega gefin út í Bretlandi og heitir á ensku Secret Garden og er höfundur hennar Johanna Basford. Íslenska útgáfan er þýdd af ljóðskáldinu Ingunni Snædal og er bókin gefin út af Bjarti.

1.500.000 eintök hafa verið seld af bókinni á heimsvísu og hún þýdd á 14 mismunandi tungumál og talsvert verið fjallað um hana í erlendum miðlum þar sem hún er sögð prýðisgóð til þess að slaka á og er Halla á sama máli.

Sökum anna hefur hún þó ekki haft mikinn tíma til þess að lita í bókina en sér fyrir sér í hillingum tíma þegar minna er að gera.

"Ég á hús upp í sveit og ég sé mig fyrir mér að sitja á sólríku sumarsíðdegi með bókina þegar ég hef ekkert annað að gera,“ segir hún hlæjandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×