Lífið

Íslenskur bjöllukór spilar í Carnegie Hall

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Bjöllukórinn samastendur af ellefu hressum bjölluleikurum.
Bjöllukórinn samastendur af ellefu hressum bjölluleikurum.
„Hann spurði hvort við hefðum tíma og áhuga á því að vera með í Carnegie Hall og við vorum bara, já! Æði!,“ segir Karen Sturlaugsson, stjórnandi Bjöllukórs Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, skellihlæjandi.

Kórinn heldur á fimmtudaginn til Bandaríkjanna þar sem hann tekur þátt í stóru bjöllukóramóti, Handbell Musicians of America, en þátttakendur á mótinu eru um 700 talsins.

Það sem meira er þá hefur bjöllukórnum verið boðið að taka þátt í tónleikum sem fara fram í Carnegie Hall en tónleikarnir eru á vegum Yale University og flutt verður frumsamið verk eftir Julian Revie. „Við vorum til dæmis að æfa með honum í gegnum Skype um daginn, þetta er í annað skipti sem hann „mætir“ á æfingu hjá okkur. Búið að vera alveg ævintýri líkast,“ segir hún alsæl.

„Þetta er bara alveg ótrúlegt ævintýri sem við höfum lent í. Ég fór að skoða möguleikana á því fyrir okkur að fara í tónleikaferð eða eitthvað og þá sá ég þetta stóra bjöllumót sem er í Massachusetts í næstu viku og við erum að fara þangað. Yale-háskóli heyrir að ég er að koma með heilan bjöllukór á þetta mót og það er haft samband við mig af því að tónskáldið vantar bjöllukór til þess að spila í frumsömdu verki í Carnegie Hall,“ segir Karen alsæl en auk stjórnanda eru ellefu bjölluleikarar í kórnum.

Karen stofnaði kórinn fyrir þremur árum en sjálf hefur hún leikið á og haft áhuga á bjöllum um langt skeið og stofnaði í fyrsta sinn bjöllukór á Íslandi fyrir rúmum fjörutíu árum.

„Ég kom til Íslands árið 1976 til þess að fara í háskóla og þá var ég búin að vera í svona bjöllustarfi úti í Ameríku. Pabbi minn átti bjöllusett og ég spurði hann hvort ég mætti fara með það til Íslands og stofnaði í kjölfarið bjöllukór,“ segir Karen en hún er fædd í Bandaríkjunum en afi hennar og amma fluttu frá Íslandi til Bandaríkjanna í kringum 1920.

„Ég hef alltaf verið mikið í þessu, mér finnst bara svo athyglisverðir þessir bjöllukórar. Þetta er alveg svaka samstarf að láta þetta hljóma sem eina heild,“ segir hún glöð í bragði en eftir bestu vitund Karenar er Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eini bjöllukórinn sem starfræktur er á Íslandi í dag og heldur reglulega tónleika.

Kórinn efnir til styrktartónleika í Hljómahöll í Reykjanesbæ í kvöld klukkan átta og á morgun í Háteigskirkju, einnig klukkan átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×