Lífið

Netlausir í viku og bjóða öllum sem vilja að taka þátt

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Arnar Geir og Birnir Jón standa fyrir netlausri viku.
Arnar Geir og Birnir Jón standa fyrir netlausri viku. Mynd/SonjaNikulásdóttir
Félagarnir Birnir Jón Sigurðsson og Arnar Geir Gústafsson standa fyrir netlausri viku sem tileinkuð er meðvitund um netnotkun.

„Þetta er í rauninni tilraun og athugun þar sem við prufum að neita okkur um það að vera á netinu í heila viku með misafgerandi hætti. Sjá hvernig við notum það og hvort við stólum rosalega mikið á það og hvernig það er að vera án þessa tækis sem getur gefið manni afþreyingu hvenær og hvar sem er,“ segir Birnir Jón en tilraunin hefst í dag og stendur fram á sunnudag.

„Þetta er viðburður á Facebook sem er skemmtilega kaldhæðnislegt,“ bætir hann við glaður í bragði en rúmlega 220 manns hafa látið sér líka við vikuna á Facebook.

Netlausu vikunni skipta þeir upp í þrjú erfiðleikastig. Það fyrsta lokar á samfélagsmiðla, annað á alla netnotkun nema þá sem tengd er vinnu og þriðja stig er algjör netlokun. Svo er þátttakendum einnig frjálst að smíða sínar eigin reglur.

Ástæður átaksins eru handritaskrif hjá þeim félögum og ákváðu þeir að prufa að bjóða fleirum að taka þátt og segir Birnir að þrátt fyrir að hann stóli talsvert á internetið þá kvíði hann ekki mikið fyrir því að vera netlaus í viku.

„Það er aðallega ef maður missir af einhverju út af þessu, annars kvíði ég mjög lítið fyrir þessu,“ segir hann hress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×