Innlent

Nýr völlur fjarlægur möguleiki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bergur Álfþórsson, formaður bæjarráðs Voga á Vatnsleysuströnd.
Bergur Álfþórsson, formaður bæjarráðs Voga á Vatnsleysuströnd.
Samgöngur Stýrihópur um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu vill að skilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum strax næsta vetur.

Hvassahraun er að hluta til í landi Voga á Vatnsleysuströnd og að hluta til í Hafnarfirði. Bergur Álfþórsson, formaður bæjarráðs Voga á Vatnsleysuströnd, segir tillögur nefndarinnar koma sér á óvart að sumu leyti og það sé alls óvíst að þetta verði að veruleika.

„Ég á hins vegar ekki von á því að sveitarfélagið sem slíkt fari neitt að setja sig upp á móti því að fá þennan flugvöll. Það er bara svo langur vegur í það að hugmyndina verði farið að ræða af einhverri alvöru. En þetta myndi líklega skapa tekjur fyrir bæjarfélagið,“ segir Bergur í samtali við Fréttablaðið.

Ólöf Nordal, ráðherra samgöngumála, segist ánægð með að Rögnunefndin hafi lokið störfum og skilað skýrslu um vinnu sína. „Nú er þessum kafla lokið og ég vil þakka nefndinni fyrir sín störf. Ég hef enn ekki komist í að lesa skýrsluna og því get ég ekki tjáð mig efnislega um hana að svo stöddu,“ segir Ólöf.

Ólöf er þeirrar skoðunar að flugvöllur í Vatnsmýri sé heppilegasta staðsetning fyrir innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu. „Já, ég hef sagt og látið hafa það eftir mér þegar ég var þingmaður að ég telji farsælast að hafa flugvöll í Vatnsmýri,“ segir Ólöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×