Innlent

Tólf manns yfirheyrðir vegna eiturlyfjasmygls

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Allir skipverjar á Skógafossi hafa verið yfirheyrðir.
Allir skipverjar á Skógafossi hafa verið yfirheyrðir. Fréttablaðið/Gva
Tólf manns hafa verið yfirheyrðir vegna fíkniefna sem fundust í gámi við Sundahöfn aðfaranótt þriðjudags. Þá hafa allir skipverjar á Skógafossi verið yfirheyrðir vegna málsins.

Um er að ræða tæplega þrjú kíló af sterkum fíkniefnum sem hafði verið komið fyrir í bakpoka. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var um kókaín að ræða og hleypur götuverð efnanna sem um ræðir á milljónum.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, staðfestir að fíkniefnin hafi fundist í gámi á athafnasvæði Eimskips.

Enginn verið handtekinn

„Eimskipafélagið tekur mjög hart á svona málum og það er algjörlega ólíðandi ef starfsfólk er viðriðið,“ segir Ólafur og bætir við að nokkrir starfsmenn Eimskips hafi verið yfirheyrðir vegna málsins. „Allir í áhöfn Skógafoss hafa verið yfirheyrðir. Í svona gámaskipum þarf hins vegar ekki að vera að áhöfnin tengist smyglinu,“ segir Ólafur.

Skógafoss er erlent leiguskip og er stór partur áhafnarinnar útlendingar. Nokkrir skipverjar eru þó Íslendingar.

Að sögn tollyfirvalda fundust fíkniefnin við hefðbundið tolleftirlit. Rannsókn lögreglu á fíkniefnasmyglinu er í fullum gangi en enn hefur engin verið handtekinn vegna málsins. Þetta staðfestir Aldís Hilmarsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×