Lífið

Þrjár systur halda tónleika

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Systurnar þrjár flytja ýmiss konar lög í kvöld og reyna meðal annars fyrir sér í rappinu.
Systurnar þrjár flytja ýmiss konar lög í kvöld og reyna meðal annars fyrir sér í rappinu. mynd/bjarney lúðvíksdóttir
„Það má eiginlega segja að þetta séu tónleikar, uppistand og dass af fróðleik,“ segir Þórunn Lárusdóttir sem ásamt systrum sínum Dísellu og Ingibjörgu heldur tónleika í Björtuloftum í Hörpu í kvöld.

Systurnar syngja ýmis íslensk lög og fara yfir tónlistarsögu Íslands og brjóta dagskrána upp með gamanmáli en dagskráin fer fram á ensku og eru tónleikarnir upphaflega ætlaðir ferðamönnum en Þórunn segir þá Íslendinga sem mættu hafa haft gaman af.

„Við erum að syngja þekkt íslensk lög sem tengjast okkur. Lögin eru frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar á Íslandi og svo tengjum við lögin við okkur persónulega. Margir af okkar forfeðrum eru mjög merkilegir í tónlistarsögunni,“ segir hún hress.

Þórunn segir tónlistina sem flutt verður vera fjölbreytta, allt frá sálmum og yfir í rapp. „Dóttir Ingibjargar systur er meðlimur í Reykjavíkurdætrum og okkur þótti við hæfi af því að við förum í gegnum forfeður okkar, að taka lag úr framtíðinni líka,“ segir Þórunn hress en dóttir Ingibjargar er Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir.

„Við röppum allar og það er sjúklega fyndið,“ segir hún skellihlæjandi og segir rappið bæði frelsandi og skemmtilegt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þórunn rappar en segir að þetta sé í fyrsta sinn, svo að hún viti til, sem systur hennar geri það.

Tónleikarnir fara fram klukkan átta í Björtuloftum í Hörpu í kvöld og verða einnig tónleikar á sunnudag sem hefjast á sama tíma. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×