Erlent

Segir Bandaríkin þreytt á veikburða forseta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fylgi Chris Christie mælist um fimmtungur af því sem það var áður en upp komst um hneykslismál sem honum tengist.
Fylgi Chris Christie mælist um fimmtungur af því sem það var áður en upp komst um hneykslismál sem honum tengist. vísir/epa
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, tilkynnti í gær um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna fyrir Repúblíkana.

Ríkisstjórinn hamraði á því í tilkynningarræðu sinni að Bandaríkjamenn væru orðnir þreyttir á veikburða forseta og væri það ástæða framboðs hans en Christie telur sig rétta manninn í starfið.

Christie er fjórtándi repúblíkaninn til að sækjast eftir útnefningu flokksins en barist verður um hvert fylki þar til einn sigurvegari stendur uppi. Sá sigurvegari mun verða forsetaframbjóðandi repúblíkana á landsvísu. Áður höfðu til dæmis Jeb Bush og Donald Trump tilkynnt um framboð.

Þrýst var á Christie að bjóða sig fram í síðustu forsetakosningum sem fóru fram 2012 og naut hann þá mikils stuðnings. Ekki einungis meðal samflokksmanna heldur einnig óákveðinna og demókrata.

Fylgi hans hefur dvínað síðan þá sökum hneykslis sem hann er bendlaður við. Christie er gefið að sök að hafa viljandi stíflað umferð í borginni Fort Lee til að ná sér niðri á borgarstjóra sem ekki vildi hjálpa honum í kosningabaráttu hans í framboði til ríkisstjóra. Nú mælist fylgi Christies í forkosningunum um 4 prósent en það var um fimm sinnum meira áður en upp komst um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×