Viðskipti innlent

Meiri kostnaður fyrir eigendur fasteigna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Borgar segir að ný lög um sölu fasteigna hafi ekki verið sett að ástæðulausu.
Framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Borgar segir að ný lög um sölu fasteigna hafi ekki verið sett að ástæðulausu. vísir/andri marínó
Ný lög um sölu fasteigna mun þrengja að nýliðun í faginu, að mati Þóru Birgisdóttur, framkvæmdastjóra fasteignasölunnar Borgar. Með nýju lögunum er gerð sú grundvallarbreyting að einungis fasteignasalar hafa heimild til að sinna öllum helstu störfum sem varða milligöngu um fasteignaviðskipti. Þeir sem ætla að gerast fasteignasalar þurfa að stunda nám í fjögur misseri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

„Til þess að komast inn í námið þarf að hafa unnið í tólf mánuði á fasteignasölu og hvað áttu að gera á fasteignasölu ef þú mátt ekki gera neitt?“ segir Þóra máli sínu til stuðnings.

Þóra Birgisdóttir framkvæmdastjóra fasteignasölunnar Borgar.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, sagði í Fréttablaðinu í gær að nýju lögin fælu í sér að störf sölumanna fasteigna, þeirra sem ekki hafi löggildingu, væru úr sögunni. Þóra segir að það eigi eftir að koma í ljós hversu þröngt nýju lögin verði túlkuð. Hún segist telja að rétt væri að hafa fyrirkomulagið tvískipt. „Ég sé ekki þörf fyrir að það fari allir í gegnum þetta tveggja ára nám. Það mætti vera einhvers konar sex mánaða sölumannsnám þannig að við tryggjum að það fari enginn af stað sem hefur ekki fengið einhvern grunn,“ segir hún.

Þóra segir að nýju lögin muni ekki hafa mikil áhrif á Borg. „Við eigum því láni að fagna að hafa fleiri löggilta fasteignasala heldur en sölumenn og erum í því ferli að það eru þrír að fara í námið og einn langt kominn,“ segir Þóra. Á endanum muni því stærstur hluti starfsmanna vera löggiltir fasteignasalar. „Hins vegar megum við hafa aðstoðarmenn og við munum örugglega nýta okkur það.“

Þóra segir að nýju lögin muni hafa meiri áhrif þar sem hlutfall löggiltra fasteignasala er lægra. Hún segist hafa skilning á nýju lögunum. „Það eru ástæður fyrir því að svona lög eru sett. Við erum að höndla með aleigu fólks og það er kannski svolítið glannalegt að aðilar hafi getað byrjað og vaðið inn í starfið án nokkurra takmarkana, eins og með fyrri lögum.“

Þóra býst við að þessar breytingar muni hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir fasteignaeigendur. „Ég tel að þetta muni ýta þóknuninni upp. Og ég vil nú líka meina að það hafi verið búið að þrýsta henni ansi langt niður miðað við þá vinnu og tilkostnað sem við höfum af því að sinna þessu almennilega,“ segir Þóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×