Innlent

Áföll og hamfarir ár eftir ár hjá bændum

Snærós Sindradóttir skrifar
Árið 2011 varð eldgos í Grímsvötnum. Sauðfé drapst vegna öskufallsins.
Árið 2011 varð eldgos í Grímsvötnum. Sauðfé drapst vegna öskufallsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Þórarinn Ingi Pétursson
„Nei, við ráðum ekki við þetta, það er bara þannig. Bændur eru ekki undir það búnir að takast á við svona ár eftir ár,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda. Endurtekin áföll hafa dunið á bændum síðastliðin ár með miklum afleiðingum.

Veður hafa almennt verið válynd. Ýmist hafa tún brunnið eða þau kalið. Fréttablaðið greindi í gær frá því að heyskapur væri ekki farinn af stað víða á Austurlandi vegna mikilla rigninga. Fyrirséð væri að fjárhagstjón bænda þar væri töluvert.

Þá höfðu eldgosin í Eyjafjallajökli árið 2010 og í Grímsvötnum árið 2011 mikil áhrif. Vorhret árið 2011 og óveður snemma hausts 2012 sömuleiðis. Fjárdauði og verkfall dýralækna í ár hefur svo haft mikið fjárhagstjón í för með sér.

„Með fjárdauðann núna, þá vitum við ekki almennilega hvað þetta er. Í sjálfu sér getum við ekki talið upp úr kössunum fyrr en í haust. Hjá sumum er þetta mikill fjöldi og hefur farið stigvaxandi,“ segir Þórarinn. Upp á síðkastið hafi bændur fundið stálpuð lömb dauð. Fækkun upp á tuttugu til þrjátíu prósent hefur orðið hjá sumum fjárbændum og það þýðir bara eitt: Minni framleiðsla verður á lambakjöti í haust en árin áður.

„Það er líka hægt að hafa á bak við eyrað að afurðaverð til bænda og kjötverð til neytenda hefur ekki fylgt neysluvísitölu undanfarin ár. Þetta gengur ekki svona til lengdar. Þegar áföllin bætast við líka og allur rekstrarkostnaður hækkar þá fáum við dæmið ekki til að ganga upp. Menn þurfa að ganga á eignir í staðinn fyrir að byggja sín bú upp,“ segir Þórarinn. „Ég á ekki von á því að Bjargráðasjóður ráði við að greiða mönnum þær bætur sem þeir þurfa,“ bætir Þórarinn við.

Bjargráðasjóður hefur fengið aukafjárveitingu frá ríkinu þegar stór áföll, eins og eldgosið 2011 og óveðrið 2012, hafa dunið yfir. Samkvæmt upplýsingum frá formanni sjóðsins, Sigurgeiri B. Hreinssyni, mun tíminn leiða í ljós hvort sjóðurinn bæti bændum fjártjónið í ár. Greining liggi ekki fyrir á ástæðum fjárdauðans.

Sigurður Eyþórsson
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, er bjartsýnn á gengi bænda, þrátt fyrir áföllin. „Þetta er ekkert auðvelt en ég held að við komumst yfir þetta eins og við höfum gert. Menn hafa mikla reynslu af því að kljást við svona áföll en þetta eru auðvitað nokkuð mörg áföll á stuttum tíma.“

Hann segir bændur, eins og aðra í rekstri, gera ráð fyrir einhverju bakslagi. Ekkert geti þó búið menn undir svo síendurtekin áföll.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×