Tónlist

Íslensk gospeltónlist í útrás vestur um haf

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér er Óskar Einarsson ásamt hluta gospelhópsins, Reykjavik Gospel Company.
Hér er Óskar Einarsson ásamt hluta gospelhópsins, Reykjavik Gospel Company.
„Þetta er auðvitað frábært tækifæri fyrir okkar íslenska gospelhóp, að fá að syngja á svona flottri gospelhátíð í Bandaríkjunum,“ segir Óskar Einarsson, tónlistarmaður og stjórnandi gospelhópsins Reykjavik Gospel Company.

Um er að ræða gospelhóp sem inniheldur átta söngvara og fjögurra manna hljómsveit og kemur fram á Gospel-hátíð sem heitir Greater Birmingham Festival of Hope og fer fram í Birmingham í Alabamafylki í Bandaríkjunum. „Þetta er risabatterí og búist við um tólf þúsund manns, þetta fer fram í risaíþróttahöll,“ bætir Óskar við.

Tónleikunum verður einnig streymt á netinu þannig að milljónirnar eru ansi margar sem geta fylgst með þeim.

Á hátíðinni kemur fram fjöldi þekktra listamanna en fremstur meðal jafningja er tónlistarmaðurinn Kirk Franklin. „Hann er stærsta nafnið í gospelheiminum í dag og hefur meðal annars unnið Grammy-verðlaun og selt milljónir platna.“ Franklin hefur unnið sjö Grammy-verðlaun og selt tugi milljóna platna.

Kirk Franklin hefur unnið sjö Grammy-verðlaun og selt tugi milljóna platna.Vísir/Getty
Óskar segir það mikinn heiður að fá að taka þátt í hátíð sem er af þessari stærðargráðu. Gospelsenan í Bandaríkjunum er mjög stór og listamenn í gospelgeiranum selja mikið af plötum og markaðurinn stór. „Þetta sýnir hvað við erum á góðum standard. Þessir aðilar sem standa fyrir þessu heyrðu í okkur koma fram á Íslandi fyrir um tveimur árum og voru hrifnir af okkur. Þeir buðu okkur til Færeyja fyrir skömmu og svo núna til Bandaríkjanna,“ segir Óskar. Kórinn kom fram með annarri stjörnu í gospelheiminum, Michael W. Smith, á stórum tónleikum í Þórshöfn í Færeyjum fyrir skömmu.

Tónleikar Reykjavik Gospel Company eru þó ekki eina erindi Óskars í Bandaríkjunum því að þrjátíu manna Gospelkór Fíladelfíu, sem Óskar stýrir einnig, kemur fram á nokkrum tónleikum í Bandaríkjunum á næstu dögum. „Við förum út í dag og verðum úti til 17. ágúst. Við tökum nokkra tónleika í kirkjum í New York og Boston. Við erum að fara til að njóta og sjá hvað er að gerast í þessari senu í Bandaríkjunum,“ segir Óskar. 

Reykjavik Gospel Company hefur lítið komið fram undir eigin nafni en hefur komið fram víða og þá oftast í formi bakradda á til dæmis Jólagestum Björgvins Halldórssonar en hluti Gospelkompanísins er einnig hluti af Gospelkór Fíladelfíu.

Reykjavik Gospel Company kemur fram á tónleikunum í Alabama næsta föstudag og verður hægt að horfa á tónleikana á netinu. Hópurinn ætlar meðal annars að frumflytja nýtt lag eftir Óskar á tónleikunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.