Lífið

Myndar íþróttafólk og er atvinnusnappari

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Snorri er enginn venjulegur ljósmyndari
Snorri er enginn venjulegur ljósmyndari Mynd/ Sindri Jensson
Ljósmyndarinn Snorri Björnsson hefur verið að gera það gott sem íþróttaljósmyndari en hann hefur aðallega verið að mynda crossfit-íþróttamenn.

Snorri vakti athygli á dögunum þegar snap-sögurnar hans slógu í gegn á meðan hann var á crossfit-leikunum í Los Angeles. Hann heldur uppi Instagram-aðganginum Berserkur þar sem hann birtir myndir af okkar fremstu íþróttakonum.

„Þetta sameinar í raun helstu áhugamálin, crossfit og ljósmyndun. Ég fór til Mallorca í sumar þar sem þjálfari nokkurra þeirra Íslendinga sem voru að fara á heimsleikana bað mig um að fara með þeim út og mynda þau. Þetta var strangt prógramm hjá þeim en það voru æfingar fjórum sinnum á dag.

Hann borgaði fyrir mig flugið og gistinguna en svo voru íþróttamennirnir sponsaðir af SciTec og borguðu undir mig í Bandaríkjunum í skiptum fyrir myndir,“ segir Snorri, en það sem hann hefur fram yfir aðra íþróttaljósmyndara var að hann bjó með þeim og náði einstökum myndum.

Eftir leikana hefur Snorri náð að koma sér á framfæri erlendis og er hann með nokkur járn í eldinum eins og stendur.

Snap-sögurnar hans Snorra vöktu mikla athygli fyrir að vera hnitmiðaðar, vel gerðar og spennandi. Á þessari einu helgi byrjuðu 3.800 manns að fylgja honum á Snapchat.

„Ég var búinn að vera að sýna frá leikunum í einn dag þegar ég fékk tölvupóst frá Nova og þeir báðu mig um að sjá um aðganginn þeirra á lokadeginum. Það eina sem ég bað um í staðinn var 4G-inneign og batterípakki. Ég varð að hlaða símann tíu sinnum á dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×