Lífið

Peran og Bö upp á stjörnuhimin í gegnum Snapchat

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Magnús Valur Böðvarsson og Magnús Guðmundsson eru léttir í lundu, með mikinn húmor fyrir sjálfum sér og lífinu í heild sinni.
Magnús Valur Böðvarsson og Magnús Guðmundsson eru léttir í lundu, með mikinn húmor fyrir sjálfum sér og lífinu í heild sinni. Vísir/GVA
Segja má að Maggarnir tveir, þeir Magnús Valur Böðvarsson og Magnús Guðmundsson, hafi skotist upp á stjörnuhimininn í gegnum snjallsímaforritið Snapchat í sumar. Sá fyrrnefndi er yfirleitt kallaður Maggi Bö eða Bö-maskínan, en sá síðarnefndi gengur undir nafninu Maggi Peran. Félagarnir slógu báðir eftirminnilega í gegn þegar þeir tóku yfir Snapchat-reikning vefsíðunnar Fótbolti.net og segir ritstjóri hennar að þeir hafi fengið fólk sem hafði ekki endilega áhuga á knattspyrnu til að fylgjast með Snapchat-reikningi síðunnar.

Peran og Bö kunna að gleðja fólk.Vísir/GVA
Peran með ádeilu

Maggi Peran er Breiðhyltingur í húð og hár, grjótharður stuðningsmaður Leiknis og annálaður stuðbolti. „Þetta er búið að vera mjög fyndið að fylgjast með þessari öldu viðbragða. Maður gerði sér ekki grein fyrir því að þetta myndi hafa þessi áhrif,“ segir hann íhugull og bætir því við að viðbrögðin hafi komið sér á óvart. Peran segist hreinlega hafa suðað í aðstandendum Fótbolti.net og beðið þá um að leyfa sér að stýra Snapchat-reikningi síðunnar. „Vinur minn, Friðgeir Bergsteinsson, sem er grjótharður KR-ingur, fékk þann heiður að stýra reikningum. Ég hafði samband við þá á Fótbolti.net og vældi mig inn.“ 

Peran hreinlega sló í gegn eftir að hafa stýrt reikningi síðunnar í einn sólarhring. Fjölmiðlar fjölluðu um hann og var mikil umræða um Breiðhyltinginn glaðbeitta á samfélagsmiðlum. „Upphaflega ætlaði ég bara að svara Friðgeiri vini mínum. En þegar ég tók eftir viðbrögðunum hélt ég áfram. Ég hef svolítið verið að vinna með það að vera á grensunni, þetta „siðlausa“ ef svo má segja.“ Snöppin hans Magga eru ádeila að hans sögn. „Þetta er klár ádeila á þessa staðalímynd sem fólk hefur um Breiðhyltinga, en við sem erum í Breiðholtinu vitum að er ekki sönn.“

Hundruð vinabeiðna

Maggi Bö ólst upp á Álftanesi en hefur lengi verið tengdur knattspyrnuliði HK. Hann er vallarstjóri á Kópavogsvelli og þekktur fyrir að vera ávallt léttur í lundu. Hann stýrði Snapchat-reikningi Fótbolti.net í einn sólarhring yfir Þjóðhátíð. Þar kruði Bö-maskínan málin á sinn hátt og lýsti stemningunni á hátíðinni vel og vandlega. Í kjölfarið rigndi inn vinabeiðnum á hans eigin Snapchat-reikning. „Vinafjöldinn í forritinu hefur tvö- eða þrefaldast. Vinabeiðnirnar eru taldar í hundruðum,“ útskýrir Magnús Valur og heldur áfram: „Aðstandendur Fótbolti.net höfðu samband við mig á föstudagskvöldinu. Ég þekki þessa stráka og þeir höfðu verið að fylgjast með mér á mínum eigin Snapchat-reikningi. Þeir vildu endilega að ég tæki yfir reikning síðunnar, sem ég og gerði.“ 

Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Nei, þetta var svolítið fyndið. Það var fullt af fólki á Þjóðhátíð sem var greinilega að fylgjast með og kom upp að mér á meðan hátíðinni stóð. Ýmist til að hrósa mér eða til að vera með í einhverjum snöppum.“ 

Vinnufélagar Magga Bö hafa einnig nýtt skopskyn hans á sínum Snapchat-reikningum. „Einn vinnufélagi minn er með sérstakan lið sem heitir „Bö dagsins“. Þá birtir hann snapp af mér, sem er nú yfirleitt leikið. En vinir hans eru mjög hrifnir af þessu og kvarta í honum ef við hittumst ekki í vinnunni til að taka upp eitthvað skemmtilegt.“

Hér má sjá þá félaga slá á létta strengiVísir/GVA
Hafa húmor fyrir sjálfum sér

Nafnarnir hafa báðir mikinn húmor fyrir sjálfum sér; í raun segja þeir það lykilinn að því að vera skemmtilegur á Snapchat. „Maður verður að vera léttur og má ekki taka sig of alvarlega,“ útskýrir Peran. Bö-maskínan segir þó mikilvægt að ganga ekki of langt í gríninu. „Maður þarf að hafa allt innan skynsamlegra marka, en auðvitað þarf að hafa gaman.“ 

Peran er nú á leið til Hollands og mun fylgja knattspyrnulandsliði Íslands eftir í einum mikilvægasta leik í manna minnum. Tilgangur ferðarinnar er einfaldur: Hann mun birta myndir og myndbönd af henni í gegnum Snapchat. „Ég kallaði eftir því að fá að fara í þessa ferð til þess að snappa úr henni og nokkur fyrirtæki höfðu samband við mig. Ég ákvað að taka boði Nova, enda er það líklega stærsti Snapchat-reikningur landsins.“ Hann er nú þegar farinn að undirbúa sig og reyna að sjá fyrir sér skemmtileg snöpp. „Já, það er nefnilega komin svolítil pressa á mann, því ég er ekki fyndinn að eðlisfari,“ segir Peran og hlær. Hægt er að finna þá félaga á Snapchat, Maggi Bö er með reikninginn Magnusvalue og Maggi Peran kallar sig einfaldlega Maggiperan í forritinu. Þeir setja þó þann fyrirvara að þeir samþykkja ekki allar vinabeiðnir.

Hafa aukið vinsældir snappsins og fært það víðar

Elvar Geir Magnússon er ritstjóri vefsíðunnar Fótbolti.net. Eins og á við um mörg önnur fyrirtæki, var ákveðið að stofna Snapchat-reikning í nafni síðunnar. „Maggi Peran og Maggi Bö hafa klárlega aukið vinsældir snappsins okkar. Við finnum fyrir meiri áhuga þeirra sem eru kannski ekki endilega annálaðir knattspyrnuáhugamenn. Við finnum fyrir mikilli umræðu um þessa tvo snillinga og fólk þrýstir á okkur að fá meira af þeim,“ útskýrir Elvar Geir og bætir við:

„Þeir hafa komið með alveg nýja hlið á snappið hjá okkur. Áður var mikið bara verið að birta myndir og myndbönd af undirbúningi fyrir knattspyrnuleiki og þess háttar. En þeir hafa sýnt frá öðrum kimum lífsins. Maður tekur líka eftir því að fólk er að taka myndir af þeim félögum þegar það hittir þá á förnum vegi, enda eftirminnilegir og skemtilegir menn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×