Lífið

Helgi Björns verður dómari í The Voice

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Helgi Björnsson er einn af dómurunum í The Voice á Íslandi.
Helgi Björnsson er einn af dómurunum í The Voice á Íslandi. vísir/stefán
Tónlistarmaðurinn og leikarinn Helgi Björnsson verður í einu dómarasætanna í íslensku útgáfunni af hæfileikaleitarþáttunum The Voice sem fara í framleiðslu hér á landi í haust. „Þetta leggst mjög vel í mig. Ég held að þetta geti verið mjög skemmtilegt, mér finnst þetta eiginlega skemmtilegasta formatið af þessum þáttum öllum, því dómararnir eru svo involveraðir í þetta og eru miklir þátttakendur,“ segir Helgi spurður út í dómaraverkefnið.

Hann og Svala Björgvinsdóttir eru þeir dómarar sem tilkynntir hafa verið.

The Voice er sýndur í 120 löndum og Ísland verður 61. landið sem gerir sína eigin útgáfu af þættinum.

„Það eru allir jákvæðir og hjálpa sínum keppendum. Þarna ertu að velja söngvara til að vinna með. Þetta er bara jákvæðni og svo þarf maður að miðla því sem maður getur gefið, það er gjöf að geta gefið, þess vegna á maður almennt að gefa meira af sér,“ útskýrir Helgi fullur tilhlökkunar.

Hann hefur þó hingað til lítið komið að dómarastörfum sem þessum. „Ég hef ekki mikið gert af þessu, ég hef einhvern tíma dæmt í einhverjum söngkeppnum hjá skólum.“

Helgi er með mörg járn í eldinum fyrir utan það að vera að búa sig undir dómarahlutverkið því hann er að vinna að nýrri plötu og einnig að búa sig undir hlutverk sitt í söngleiknum Mamma Mia sem settur verður upp í Borgarleikhúsinu í vetur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×