Viðskipti innlent

Áfram er hundraða milljóna tap af rekstri Hörpu

ingvar haraldsson skrifar
Fasteignagjöld hafa haft mikil áhrif á rekstur Hörpu.
Fasteignagjöld hafa haft mikil áhrif á rekstur Hörpu. vísir/anton brink
Tap af grunnrekstri Hörpu á fyrri hluta þessa árs nam 169 milljónum króna. Allt síðasta ár var tapið 380 milljónir króna. Samanlagt tap síðustu 18 mánaða af grunnrekstri Hörpu nemur því 549 milljónum króna.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir ljóst að rekstur Hörpu standi ekki undir sér miðað við óbreytt fasteignagjöld en Hörpu er gert að greiða 188 milljónir króna í fasteignagjöld vegna fyrri hluta ársins. „Við borgum fjórum sinnum ­hærri­ gjöld á fermetra en Kringlan og Smáralind,“ bendir Halldór á.

Hann segir þó að rekstur Hörpu fari batnandi, tapið á fyrri helmingi ársins 2015 hafi verið 40 milljónum króna lægra en á fyrri helmingi ársins 2014. „Í fyrsta skipti er tapið talsvert lægra en fasteignagjöldin sem við borgum,“ segir Halldór.

Halldór Guðmundsson - forstjóri - Harpa -
Harpa tapaði dómsmáli fyrir­ Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Þjóðskrá Íslands í maí, þar sem farið var fram á að fasteignamat hússins yrði ógilt. Harpa hefur áfrýjað því máli til Hæstaréttar. „Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir­ því að fasteignagjöldin yrðu um það bil helmingi lægri. Þá var einnig reiknað með því að uppbygging á Hörpu­reitnum yrði samferða Hörpunni. Svo kemur hrunið og þetta dregst allt mjög á langinn. En ég er reyndar ekki í neinum vafa um að ávinningur þjóðarinnar af þessu húsi er gríðarlegur, það komu 1,5 milljónir manna í húsið í fyrra,“ segir Halldór.

Fasteignagjöldin sem Harpa greiðir renna til Reykjavíkurborgar, sem á 46 prósenta hlut í Hörpu á móti 54 prósenta hlut ríkisins. Ríkið og Reykjavíkurborg greiða um milljarð króna árlega af 19,5 milljarða króna skuldabréfi sem gefið var út til að fjármagna byggingu Hörpu. Þar að auki hafa ríkið og Reykjavíkurborg skuldbundið sig til að greiða beint til reksturs Hörpu um 170 milljónir króna árlega út árið 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×