Rebekah Brooks mun snúa aftur í stól framkvæmdastjóra dagblaðaútgáfu fjölmiðlafyrirtækis Ruperts Murdoch á mánudag.
Brooks lét af störfum árið 2011 í kjölfar símahlerunarhneykslis sem skók breskt samfélag. Brooks var sýknuð af dómstólum í Bretlandi á síðasta ári af ákærum um símahleranir, mútur og að hindra framgöngu réttlætis.
Brooks var þá ein af sjö fyrrverandi starfsmönnum dagblaðanna News of the World og The Sun sem réttað var yfir.
Í frétt BBC kemur fram að dagblaðaútgáfa hafi átt undir högg að sækja undanfarna mánuði, en endurskipulagning fyrirtækisins News Corp, sem kynnt var í dag, felur jafnframt í sér að Tony Gallagher, aðstoðarritstjóri Daily Mail, verður nýr ritstjóri Sun.
