Innlent

Konan sem lést við Jökulsárlón var frá Kanada

Birgir Olgeirsson skrifar
Hjólabáturinn Klaki á ferð um Jökulsárlón.
Hjólabáturinn Klaki á ferð um Jökulsárlón. Vísir/Valli
Kona sem lést við Jökulsárlón í síðustu viku var frá Kanada og á ferðalagi hér um landið ásamt eiginmanni sínum og syni. Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi er enn í fullum gangi vegna málsins en konan varð undir hjólabát á planinu milli Jökulsárlóns og kaffihússins sem þar stendur mánudaginn 27. ágúst síðastliðinn. Talið er að konan hafi látist samstundis en hún var um sextugt.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögregluna hafa yfirheyrt nokkuð marga í tengslum við rannsóknina en ekki er vitað að svo stöddu hvort einhverjir muni bætast í þann hóp. „Ég held að það sé búið að yfirheyra þá sem við vitum um. Það var gert fyrstu tvo dagana. Það getur síðan auðvitað komið upp einhver nýr sem gefur sig fram sem vitni.“

Báturinn sem um ræðir er hjólabáturinn Klaki, sem er rúm þrjú tonn að þyngd, en Þorgrímur segir lögreglu ekki hafa kyrrsett bátinn á meðan rannsókn stendur yfir. „Hann fór hins vegar ekki af stað aftur fyrr en tæknirannsókn á vettvangi var lokið en henni lauk næsta dag. Þá eru menn með allar upplýsingar um farartækið,“ segir Þorgrímur. Rannsóknarnefnd samgönguslysa mætti einnig á vettvang og fór yfir bátinn með það að markmiði að tryggja að samskonar slys eigi sér ekki stað aftur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×