Körfubolti

Allt byrjunarlið Atlanta Hawks valið „leikmaður" mánaðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið Atlanta Hawks.
Byrjunarlið Atlanta Hawks. Vísir/Getty
Atlanta Hawks varð í janúar fyrsta liðið í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta til að vinna alla sautján leiki sína í einum mánuði og í gær skrifaði liðið einnig nýjan kafla í söguna þegar NBA-deildin valdi alla fimm byrjunarliðsleikmenn liðsins besta leikmenn Austurdeildarinnar í mánuðinum.

Paul Millsap, Jeff Teague,  Al Horford, Kyle Korver og DeMarre Carroll voru allir valdir bestu leikmenn mánaðarins. Þeir skoruðu allir yfir tíu stig í leik en enginn þeirra skoraði þó meira en tuttugu stig að meðaltali.

Atlanta Hawks hefur komið öllum á óvart með frábærri spilamennsku í vetur en liðið er langefst í Austurdeildinni og rétt á eftir Golden State Warriors þegar kemur að besta sigurhlutfallinu í allri NBA-deildinni.

Paul Millsap var stigahæsti leikmaður Atlanta Hawks í mánuðinum (18,3 stig í leik) en næstir honum voru þeir Horford (17,1), Teague (16,6), Korver (13,4) og Carroll (12,3). Atlanta-liðið vann þessa sautján leiki sína með 11,9 stigum að meðaltali í leik.

Millsap var efstur þeirra í fráköstum (8,0 í leik), Teague leiddi liðið í stoðsendingum (8,5) og stolnum boltum (1,8), Horford varði flest skot (1,4) og Korver var með bestu þriggja stiga skotnýtinguna (56.7 prósent).

James Harden hjá Houston Rockets var valinn besti leikmaður janúar í Vesturdeildinni en hann var með 25,8 stig og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.  Þetta er annar mánuðurinn í röð sem Harden er valinn bestur.

Bestu leikmenn mánaðarins í NBA-deildinni í vetur:

Nóvember

Austurdeildin:     Jimmy Butler, Chicago Bulls

Vesturdeildin:     Stephen Curry, Golden Statw Warriors

Desember  

Austurdeildin:     Kyle Lowry, Toronto Raptors

Vesturdeildin:     James Harden, Houston Rockets

Janúar

Austurdeildin:     DeMarre Carroll, Atlanta Hawks

                         Al Horford, Atlanta Hawks

                         Kyle Korver, Atlanta Hawks

                         Paul Millsap, Atlanta Hawks

                         Jeff Teague, Atlanta Hawks

Vesturdeildin:     James Harden, Houston Rockets

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×