Bíó og sjónvarp

Gæti unnið til BAFTA á sunnudaginn

Freyr Bjarnason skrifar
Leikarinn Stephen Fry verður kynnir BAFTA-hátíðarinnar í London í tíunda sinn á sunnudaginn.
Leikarinn Stephen Fry verður kynnir BAFTA-hátíðarinnar í London í tíunda sinn á sunnudaginn. Vísir/Getty
Stærstu nöfnin í Hollywood verða á meðal gesta á hinni árlegu bresku BAFTA-verðlaunahátíð sem verður haldin í 68. sinn í London á sunnudaginn.

Hátíðin fer fram í Royal Opera House í Covent Garden og á meðal þeirra sem ganga eftir rauða dreglinum verða Benedict Cumberbatch, Reese Witherspoon, Eddie Redmayne, Julianne Moore, Ralph Fiennes og Michael Keaton.

Einnig verður á hátíðinni Jóhann Jóhannsson sem er tilnefndur til BAFTA-verðlaunanna fyrir tónlistina í The Theory Of Everything sem fjallar um vísindamanninn Stephen Hawking. Stutt er síðan Jóhann vann Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina fyrstur Íslendinga, auk þess sem hann er tilnefndur til Óskarsverðlaunanna sem verða afhent 22. febrúar.

Á BAFTA-hátíðinni mun Jóhann etja kappi við Antonio Sanchez fyrir tónlistina í Birdman, Alexandre Desplat fyrir The Grand Budapest Hotel, Hans Zimmer fyrir Interstellar og Mica Levi fyrir Under the Skin.

Stephen Fry verður kynnir í tíunda sinn og hlakkar hann mikið til. „Að vera kynnir á kvikmyndaverðlaununum hefur alltaf verið hápunktur ársins hjá mér,“ sagði hinn nýgifti leikari. „Að aðstoða akademíuna við að kynna kvikmyndagerð og hvetja fólk til að fara í bíó skiptir mig miklu máli.“

Auk þess að verðlauna fyrir kvikmyndir eru BAFTA-verðlaunin einnig veitt fyrir afrek í sjónvarpi og tölvuleikjum.

Hljómsveitin Kasabian stígur á svið á hátíðinni og sagði gítarleikarinn Sergio Pizzorino í samtali við blaðið Daily Mail að það væri „gríðarlegur heiður“ að fá að opna hátíðina. Lofaði hann eftirminnilegri frammistöðu.

Jóhann Jóhannsson gæti bæst í hóp þeirra Íslendinga sem hafa hlotið BAFTA-verðlaunin.Vísir/Getty
Gamanmyndin The Grand Budapest Hotel hlaut flestar tilnefningar til BAFTA-verðlaunanna, eða ellefu talsins, þar á meðal sem besta myndin og fyrir besta leikarann, Ralph Fiennes. The Theory Of Everything hlaut tíu tilnefningar, þar á meðal í fjórum stærstu flokkunum.

Birdman fékk einnig tíu tilnefningar en The Imitation Game fékk níu, þar á meðal fyrir bestu leikkonuna í aukahlutverki, Keiru Knightley. 

Leikstjórinn Mike Leigh, sem var heiðursgestur RIFF-hátíðarinnar hér á landi í fyrra, fær heiðursverðlaunin BAFTA-Fellowship og kemst þá í hóp með ekki ómerkara fólki en Helen Mirren, Alfred Hitchcock og Steven Spielberg. 

Eftir að athöfninni lýkur á sunnudaginn mun hljómsveitin Molotov Jukebox leika fyrir dansi í eftirpartíi á hótelinu Grosvenor House. 

Íslendingar og BAFTA-verðlaunin

2014: Ólafur Arnalds hlaut BAFTA-verðlaunin fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Broadchurch.

2012: Kvikmyndatökumaðurinn Hákon Pálsson hlaut BAFTA New Talent-verðlaunin í Skotlandi fyrir myndina No More Shall We Part.

2006: Latibær hlaut BAFTA fyrir besta alþjóðlega barnaefnið.

2005: Valdís Óskarsdóttir hlaut verðlaunin fyrir klippingu myndarinnar Eternal Sunshine of the Spotless Mind.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.