Viðskipti innlent

Al-Thani málið í Hæstarétti: Segir ákæruvaldið hafa viðhaldið tortryggni varðandi viðskiptin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson, fyrir miðju, var annar stærsti hluthafi Kaupþings í gegnum eignarhaldsfélög sín.
Ólafur Ólafsson, fyrir miðju, var annar stærsti hluthafi Kaupþings í gegnum eignarhaldsfélög sín. Vísir/Daníel
„Málið er einfalt, þarna fóru fram hlutabréfaviðskipti. En ákæruvaldið hefur átt sinn þátt í að viðhalda tortryggni varðandi viðskiptin með því að nota gildishlaðin orð eins og „viðskiptaflétta” og „glansmynd””, sagði Þórólfur Jónsson, verjandi Ólafs Ólafssonar, í málflutningi í Al-Thani málinu í Hæstarétti í morgun. 


Líkt og Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson fer Ólafur Ólafsson fram á frávísun málsins. Vísaði verjandi hans þar til þess að aðgangur Ólafs að gögnum málsins hafi verið skertur og því hafi verið brotið á rétti hans sem sakborningi í sakamáli. 



Til vara krefst Ólafur ómerkingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, en Ólafur var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í desember 2013. 

Hafði verjandi Ólafs ýmislegt við mat héraðsdóms á trúverðugleika vitna að athuga. Mótmælti verjandinn því að framburður Eggerts Hilmarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg, hafi verið tekinn trúanlegur.

Eggert hafi verið sá eini sem hafi haldið því fram að Ólafur hafi átt að hagnast á viðskiptunum við Al-Thani, auk þess sem að framburður hans hafi verið reikull og óskýr. Engu að síður hafi héraðsdómur litið á hann sem lykilvitni hvað varðaði sakfellingu Ólafs í málinu.

Sjá einnig: Tekist á um hleranir, trúverðugleika vitna og meint vanhæfi dómara.

Brotið á rétti sakborninga þar sem Al-Thani var ekki kallaður fyrir dóm


Þá gerði verjandinn alvarlegar athugasemdir við það að Al-Thani sjálfur hafi ekki borið vitni fyrir dómi. Sagði hann ákæruvaldið hafa komið í veg fyrir að sheikhinn frá Katar kæmi fyrir dóm. Vísaði hann til þess að starfsmenn sérstaks saksóknara höfðu tekið símaskýrslu af Al-Thani. 



Þeim skilaboðum var svo komið til lögmanns hans að ekki yrðu aðrar spurningar bornar upp fyrir dómi. Ákæruvaldið hefði hins vegar ekki vakið athygli á því að verjendur kynnu að spyrja annarra spurninga en ákæruvaldið. Með þessu hafi verið brotið á rétti sakborninga í málinu.

Málflutningi í Hæstarétti á að ljúka í dag. Al-Thani málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.

Var mál sérstaks saksóknara byggt á því að um sýndarviðskipti hefði verið að ræða til að halda uppi hlutabréfaverði í Kaupþingi og búa til falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×