Viðskipti innlent

Flaggskip selt og fiskvinnslu hætt til að forðast gjaldþrot

Kristján Már Unnarsson skrifar
Yfir fimmtíu störf hverfa frá Tálknafirði með sölu stærsta fiskiskipsins og lokun frystihússins, en aðgerðirnar verða staðfestar með samningum á næstu dögum. Útgerðarmaðurinn segir reksturinn hafa stefnt í þrot en vonast til að uppbygging fiskeldis mildi höggið fyrir þessa þrjúhundruð manna byggð.

Fiskiskipið Kópur BA í eigu Þórsbergs hf. hefur verið flaggskip Tálknfirðinga og staðið undir fiskvinnslu fyrirtæksins, stærsta atvinnufyrirtækis Tálknafjarðar með um 60 starfsmenn. Í lok ágústmánaðar var öllum starfsmönnum frystihússins sagt upp vegna endurskipulagningar og ákveðið að rekstur hæfist ekki á ný eftir sumarleyfi.

Nú er orðið ljóst að frystihúsinu verður lokað og skipið selt úr byggðinni. Að sögn Guðjóns Indriðasonar útgerðarmanns er stefnt að því að ganga frá samningum um sölu Kóps ásamt kvóta til Suðurnesja, til fyrirtækisins Nesfisks í Garði, fyrir miðja þessa viku. Guðjón segir að með skiptisamningum við Nesfisk fái Þórsberg þó tvo þriðju hluta kvótans til baka í formi krókaaflamarks en áformað er að gera út minni krókabát sem kallar á sex til sjö störf.

Þórsberg hf. hefur verið stærsta atvinnufyrirtækið á Tálknafirði með 60 manns í vinnu. Eftir endurskipulagningu verða aðeins sex til sjö starfsmenn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Þetta þýðir að um 54 störf tapast frá Tálknafirði en ráðgert er að aflinn verði seldur á markaði. Guðjón tekur þó fram að ef staðan á saltfiskmörkuðum batni sé hugsanlegt að fiskvinnsla hefjist að nýju, en hún verði þó mun minni en áður. 

Hann segir skuldastöðu fyrirtækisins knýja á um þessar breytingar. Að öðrum kosti hefði stefnt í þrot, og segir hann að rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra útgerða sé erfitt. Lækkun olíuverðs sé það eina jákvæða fyrir reksturinn. Gengisþróun hafi verið óhagstæð og kvótagjöld bæti ekki stöðuna. Ekki sé hægt að fljóta sofandi að feigðarósi.

Guðjón bendir á að það mildi höggið fyrir Tálknafjörð að þar byggist fiskeldi upp af krafti með verulegri fjölgun starfa en þar eru nú fjögur eldisfyrirtæki; Tungusilungur, Fjarðalax, Arnarlax og Dýrfiskur.


Tengdar fréttir

Makríll stuðlar að húsasmíði á Suðurnesjum

Makrílveiðar valda því að eitt af sjávarútvegsfyrirtækjum Suðurnesja stendur í þrjúhundruð milljóna króna framkvæmdum og sést byggingarkrani nú á hreyfingu í Garðinum.

Uppsagnir á Tálknafirði reiðarslag fyrir samfélagið

„Fólk er að taka þessu mjög illa en marga grunaði að það væri eitthvað í gangi,“ segir einn þeirra 26 starfsmanna sem sagt var upp störfum hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Þórsbergi á Tálknafirði í fyrradag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×