Skoðun

Sjúkraþjálfarar og samkeppnin

Unnur Pétursdóttir skrifar
Nokkuð hefur verið rætt um möguleika þess að auka samkeppni í heilbrigðisþjónustu í þeim tilgangi að þrýsta á um samkeppnishæf laun til handa háskólamenntuðum starfsstéttum á Landspítalanum.

Sjúkraþjálfarar eru ein þeirra stétta sem starfa á Landspítalanum. Störf þeirra fara ekki hátt en eru mikilvægur hlekkur í langri keðju verka sem þarf að vinna svo árangur náist af meðferð sjúklinga. Störf sjúkraþjálfara á bráðasjúkrahúsi krefjast mikillar sérhæfingar.

Rétt um 15% sjúkraþjálfara landsins starfa á Landspítalanum. Sjúkraþjálfarar hafa allt frá árinu 1973 haft verktakasamning við Sjúkratryggingar Íslands auk þess sem stór hluti starfar á öldrunarheimilum, hjá íþróttafélögum, stoðtækjafyrirtækjum og víðar. Þar með er veruleg samkeppni um starfskrafta sjúkraþjálfara sem ætti, samkvæmt umræðunni, að endurspeglast í samkeppnishæfum launum sjúkraþjálfara starfandi á Landspítalanum. En er það svo?

Napur raunveruleikinn er sá að á Landspítalanum, flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu, háskólasjúkrahúsi landsins, starfa sjúkraþjálfarar eftir daprasta samningi sjúkraþjálfara og svo hefur verið um árabil. Samkeppnin er fólgin í því að ungir og upprennandi sjúkraþjálfarar koma inn með áhuga og eldmóði, fá nokkra launaseðla og svolitla starfsreynslu og hverfa svo á braut. Öflugur hópur reyndra sjúkraþjálfara með mikla sérhæfingu halda starfsemi endurhæfingar uppi á launum sem eru skammarleg. Starfsaldur þeirra er orðinn hár og innan fárra ára fara þeir fyrstu að fara á eftirlaun. Hverjir fást til að taka við þekkingu þeirra og reynslu?

Samkeppni hefur ekki verið töfralausn að bættum kjörum sjúkraþjálfara á Landspítalanum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×