Skoðun

Tví­eggjað sverð

Elín Hirst skrifar

Fregnir um að lífi sjúklinga sé stefnt í hættu vegna þess að þeir fá ekki viðeigandi meðferð vegna verkfalla vekja óhug. Sérfræðingur í krabbameinslækningum segir að fáist ekki nauðsynlegar undanþágur kunni svo að fara að það kosti mannslíf. Nauðsynlegar undanþágur hljóta því að verða veittar tafarlaust.



Neyðarástand hefur ríkt á svínabúum því ekki er hægt að slátra dýrunum en þegar dýrin stækka og þyngjast leiðir það til svo mikilla þrengsla í stíum svo dýrin hafa ekki rými til að hreyfa sig. Það er óhæft. Þessi staða sýnir einnig glöggt hve þröngt er um eldisdýrin við venjulegar aðstæður sem veldur áhyggjum.



Eðli verkfalla er því miður þannig að oft bitna þau ekki síður á öðrum en þeim sem vinnudeilan beinist að, auk þess sem verkföll ólíkra starfsstétta hafa misalvarleg áhrif á gangverk samfélagsins. Þess vegna er verkfallsvopnið beitt og um leið vandmeðfarið. Auðvitað eiga sjúkir og þurfandi að vera í algerum forgangi þegar verkfallsástand ríkir, eins og nú er. Yfirleitt sýna menn mannúð og skilning og veita nauðsynlegustu undanþágur á meðan á verkföllum stendur, en núverandi staða er þó þannig að ekki er hægt að halda uppi bráðnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Sú staðreynd hlýtur einnig að taka mjög mikið á þá sem eru í verkfalli og vita af vaxandi vandræðum og neyð þeirra sem síst skyldi.



Verkföll hljóta að vera þrautalending, þar sem svo mikið er lagt undir og svo miklu fórnað og þau verða að skila þeim sem hana heyja árangri. Um það er varla deilt lengur að það sem skiptir langmestu máli er að tryggja kaupmátt þeirra launa sem fólk aflar. Fjarstæða er að láta það henda að knýja fram „of miklar launahækkanir“ sem brenna samstundis upp á verðbólgubáli. Við Íslendingar þekkjum þannig „kjarabætur“ af biturri reynslu. Til að verja kaupmáttinn er því lykilatriði að þeir kjarasamningar sem nú er verið að reyna að ná verði gerðir með það að markmiði að halda þeim stöðugleika sem nú ríkir í efnahagskerfinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×