Erlendur Eiríksson mun dæma úrslitaleik Borgunarbikars karla í ár en Valur og KR mætast í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli á laugardaginn.
Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í dag sem var haldin í tengslum við úrslitaleikinn sem hefst klukkan 16.00 á laugardaginn.
Jóhann Gunnar Guðmundsson og Frosti Viðar Gunnarsson verða aðstoðardómarar í leiknum en fjórði dómari er Garðar Örn Hinriksson sem dæmdi einmitt úrslitaleikinn í fyrra.
Þetta verður annar bikarúrslitaleikurinn sem Erlendur dæmir á ferlinum en hann dæmdi einnig úrslitaleikinn fyrir fimm árum. FH vann þá 4-0 sigur á KR í þeim leik.
Erlendur verður fimmti dómarinn sem nær því að dæma tvo bikarúrslitaleiki á þessari öld en hér fyrir neðan má sjá þá sem eru í þeim hópi með honum.
Flestir dæmdir bikarúrslitaleikir á þessari öld: (frá 2000)
2 - Erlendur Eiríksson (2010, 2015)
2 - Garðar Örn Hinriksson (2003, 2014)
2 - Jóhannes Valgeirsson (2006, 2009)
2 - Egill Már Markússon (2002, 2007)
2 - Kristinn Jakobsson (2004, 2013)
