Skoðun

Landsbankinn verði listasafn

Bragi Björnsson skrifar
Þegar Landsbankinn var seldur einkaaðilum á sínum tíma voru þau mistök gerð að listasafn bankans fylgdi með í kaupunum. Listasafn sem réttilega hefði átt að verða eign þjóðarinnar. Nú þegar stjórn bankans hefur ákveðið að reisa nýjar höfuðstöðvar og auglýst hefur verið eftir hugmyndum um nýja notkun á glæsibyggingu bankans í Austurstræti gefst kærkomið tækifæri til að leiðrétta mistökin sem gerð voru á sínum tíma.

Mikill sómi væri að því að Landsbankinn af þessu tilefni færði Listasafni Íslands að gjöf listasafn bankans og þær viðbætur er kunna að verða á því um ókomna tíð. Gjöfinni fylgdi sú kvöð að bankanum væri heimilt að sýna hluta safnsins í útibúum og öðru húsnæði bankans, en meginþorri verkanna yrði almenningi til sýnis í gömlu höfuðstöðvunum, sem breytt yrði í listasafn sem bankinn ræki á sinn kostnað.

Auk sýninga á listaverkum í eigu bankans yrði listamönnum gefinn kostur á að sýna verk sín endurgjaldslaust í húsinu, því næg eru salarkynnin. Í núverandi afgreiðslusal bankans væri tilvalið að reka veitingahús. Tekjur af þessum rekstri myndu ganga upp í rekstrarkostnað listasafnsins en það sem á vantaði myndi bankinn greiða sem styrk til samfélagsins.

Á þennan hátt væri hinu glæsilega húsi bankans fundið verðugt hlutverk og þau mistök sem gerð voru leiðrétt. Þykir einsýnt að safn á þessum stað myndi auðga menningarlíf í miðbænum og draga að íslenska og erlenda listaunnendur.

Svo væri það auk þess til bóta ef síðari tíma viðbygging yrði rifin svo hinn upprunalegi glæsileiki hússins fengi að njóta sín á ný.




Skoðun

Sjá meira


×