Innlent

Vélstjóri féll niður í lest í Landeyjahöfn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dýpkunarskipið Perla hóf árið 2010 að dæla sandi upp úr Landeyjahöfn.
Dýpkunarskipið Perla hóf árið 2010 að dæla sandi upp úr Landeyjahöfn. vísir/óskar p. friðriksson
Vélstjóri slasaðist þegar hann féll niður í lest dýpkunarskipsins Perlu-RE þar sem það var við dælingar í Landeyjahöfn á laugardag. Maðurinn var að vinna við enda sandrörs þegar festing datt af enda rörsins og lenti á honum sem við það féll fram fyrir sig.

Hlúð var að skipverjanum á vettvangi og var hann að lokum fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Hann tvíbrotnaði á læri, brákaðist á öxl og með að minnsta kosti einn brotinn hryggjarlið, að sögn Björgvins Helgasonar, skipstjóra á Perlu.

Björgvin segir það mikla mildi að ekki fór verr. Röð atvika hafi orsakað slysið en verkferlar verði yfirfarnir. „Þetta er eina svona slysið til áratuga og algjörlega tilviljanakennt. En við teljum það mikla mildi að það rifnaði ekki slagæð, t.d á læri,“ segir hann.

Veðuraðstæður voru slæmar umræddan dag. Annað dæluskip beið þess að komast inn í höfnina en gat það ekki vegna ölduhæðar. Björgvin segir Perlu hafa verið innan hafnar og aðstæður þar með besta móti. Slysið sé því ekki hægt að rekja til veðuraðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×