Innlent

Árni Páll segir utanríkisstefnu Íslands virðast til sölu hæstbjóðanda

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ólíklegt að Íslendingar hætti að styðja viðskiptaþvinganir ESB þótt tollar verði óbreyttir á makríl frá Íslandi. Hann segir hinsvegar nauðsynlegt að taka þá umræðu beri viðræður við ESB í næstu viku engan árangur. Hann segir að einhugur sé í ríkisstjórn um viðskiptaþvinganirnar. Formaður Samfylkingarinnar spyr hvort afstaða Íslands sé til sölu.

Gunnar Bragi segir að viðræðum verði haldið áfram á næstu dögum í framhaldi af símafundi forsætisráðherra Íslands og Mededev forsætisráðherra Rússlands á föstudag.

„Á sama tíma munum við að sjálfsögðu ræða við Evrópusambandið af því að Evrópusambandið hefur boðið upp á þær viðræður að liðka til fyrir þessar afurðir sem lenda í banninu með því að mögulega fella niður tolla inn á Evrópumarkaðinn. Vonandi náum við að fara í þær viðræður í næstu viku. Það er ekki komin dagsetning á það en embættismenn Íslands og Evrópusambandsins munu ræða saman eftir helgina.“

Gunnar Bragi segir nauðsynlegt að fara yfir málið eftir fundinn með Evrópusambandinu.

„Við höfum lagt áherslu á að það sé liðsheild sem er í þessum þvingunum. Við erum hluti af þessari liðsheild. Þess vegna hef ég sagt bara að ef það kemur lítið út úr þeim viðræðum við bandamenn okkar þá hljótum við að tala um það í ríkisstjórn hvaða áhrif það hefur. Ég er ekki að boða það að það verði breytt um stefnu, ég er einfaldlega að segja það að það verði að fara yfir málin.“

Þú ert ekki að útiloka það að það verði breytt umstefnu?

„Það er ekki hægt að útiloka neitt að sjálfsögðu án þess að umræða fari fram. En það er ekki hægt að túlka þetta með þeim hætti að það verði breytt um stefnu. Við hljótum hins vegar að ræða það.“

Árni Páll Árnason segist aldrei hafa heyrt að tollaívilnanir frá ESB væru forsenda fyrir stuðningi Íslands við efnahagsþvinganir gangvart Rússlandi. „Þeir sem hafa viljað gera afstöðu Íslands að féþúfu hafa verið úthrópaðir. Það er skrýtið að þessi ríkisstjórn ætli að innleiða það í utanríkisstefnu að afstaða Íslands sé til sölu fyrir hæstbjóðanda hverju sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×