Ítrekaðar tilraunir nú í kvöld til að koma sanddæluskipinu Perlunni á flot í Reykjavíkurhöfn báru ekki árangur og hefur störfum björgunaraðila verið hætt í bili. Hallur Árnason, öryggisfulltrúi hjá Faxaflóahöfnum, segir að áfram hafi flætt inn í skipið, þó það hafi að vísu farið hátt upp að þessu sinni.
„Það vantaði ekki mikið upp á að ná skipinu upp,“ segir Hallur. Hann treystir sér þó ekki í að fullyrða hversu mikið vantaði upp á.
„Fyrr valt skipið yfir á bakborðshliðina. Núna veltist það yfir á stjórnborðshliðina,“ segir hann. „Það er bara látið síga aftur og við þurfum núna bara að finna út úr því hvers vegna við náum ekki framhlutanum upp.“
Á morgun stendur til að fulltrúar Faxaflóahafna ræði við björgunaraðila um næstu skref.
„Þetta tekst,“ segir Hallur aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að tilraunir til að koma Perlu á flot beri brátt árangur. „Skipið er ekki látið liggja, það verður ekki hætt fyrr en þetta er búið. Það verður bara að hafa tíma til að gera hlutina örugglega.“

