Heilsa

Veljum rétt á grillið

rikka skrifar
Um komandi helgi ná útilegur og grillveislur algjöru hámarki en sjálfsagt hefur þjóðin verið iðin við kolann þrátt fyrir húrrandi rigningu og rok. Við Íslendingar gefumst nefnilega ekki upp, við grillum ef við ætlum að grilla.

Ef rétt er að farið geta grillréttir verið ansi hollir og bragðgóðir en það er auðvelt að breyta því með tilheyrandi sósum, meðlæti og drykkjarföngum. Við eigum að njóta sumarsins og samverunnar við grillið en það breytir því ekki að það er ákjósanlegt að huga að því hvað við setjum ofan í okkur, það er hægt að grilla fleira en hamborgara og pylsur.

Hér koma örfá ráð sem gott er að hafa í huga við grillið:

Grænmeti

Sem fyrri daginn er okkur mannfólkinu ráðlagt að borða okkar daglega skammt af grænmeti og það á líka við um sumartímann. Að mínu mati er grænmeti sjaldan betra en beint af grillinu og þá sérstaklega ef búið er að nostra við það örlítið með góðri marineringu og kryddi.

Gættu þess bara að sverta það ekki of mikið því þá er gleðin fuðruð upp í kosmósið.

Sósur

Íslendingar elska sósur hver svo sem ástæðan er fyrir því. Ég er alls ekki á móti sósum, þvert á móti sver ég mig í ættina og elska sósur eins og hver annar en sósa er ekki bara sósa. Það er hvergi höggvið í stein að sósur þurfi að vera óhollasti hluti máltíðarinnar.

Mér finnst ágætt ráð að blanda majónesi og léttum sýrðum rjóma saman til helminga, þá verður hún fituminni og léttari í sér. Svo er líka hægt að bera grillmat fram með heimatilbúinni salsa, guacamole eða chimichurri.

Kjötið

Það er aðdáunarverð kúnst að grilla kjöt rétt og vel. Það skiptir miklu máli að vanda sig á grillinu og breyta ekki fallegri nautalund í kolamola og með því gera það óhollt í leiðinni. Veldu góða bita á grillið.

Fiskur

Fátt er betra en vel grillaður fiskur, stútfullur af næringarefnum. Sumum reynist það mikil áskorun að grilla fiskinn því hann á það til að festast við og detta í sundur þegar kemur að því að snúa.

Notaðu þar til gerða fiskigrind, það gerir lífið örlítið auðveldara, nú ef þú átt ekki eina slíka, skelltu þá bara fisknum á álpappír og lokaðu grillinu í stutta stund eða þar til að fiskurinn er fulleldaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.