Fótbolti

Heimir: Bikartapið truflar ekki enda erum við vanir því að detta úr bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Guðjónsson ræðir við blaðamenn í gær.
Heimir Guðjónsson ræðir við blaðamenn í gær. vísir/andri marinó
„Skipulagið gekk vel. Þeir voru ekki að skapa mörg færi í fyrri leiknum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, á blaðamananfundi í gær um fyrri leikinn gegn SJK í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Seinni leikurinn fer fram á Kaplakrikavelli í kvöld klukkan 19.15 þar sem FH er í góðri stöðu eftir 1-0 sigur í fyrri leiknum þar sem Steven Lennon skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu.

„Þeir eru mjög góðir í að halda boltanum og við vorum í eltingarleik. Eftir markið okkar fengum við samt góð færi til að bæta við sem hefði verið sterkt en 1-0 er staðan og þetta verður hörkuleikur,“ sagði Heimir.

„Forystan gefur okkur það, að við þurfum ekki að breyta skipulaginu mikið. Við getum farið skynsamlega inn í leikinn en auðvitað erum við á heimavelli og þurfum því að sækja og geta haldið boltanum.“

FH féll enn eina ferðina úr bikarnum á dögunum þegar liðið tapaði fyrir KR, 2-1, í Frostaskjóli. Heimir segir það tapa ekki hafa nein áhrif á undirbúninginn.

„Alls ekki. Við erum orðnir svo vanir því að detta úr bikarnum á síðustu árum,“ sagði þjálfarinn og uppskar hlátur í salnum.

„Sá leikur er bara búinn þó það voru auðvitað gríðarleg vonbrigði. Það er bara búið og það þýðir ekkert að eyða tíma í það. Nú er þetta bara áfram veginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×