Skoðun

Dýraníð – þversögn þjóðar

Þröstur Friðfinnsson skrifar
Íslendingum er almennt annt um dýr jarðar og þeir eru fljótir að fordæma illa meðferð þeirra. Hver man ekki eftir Lúkasarfári og þá er það talið dýraníð að drepa tófu með snæri eða vasahníf að vopni. Höfum við þó ekki mikla samúð með dýrbítum.

Það er því einkennileg þversögn að Íslendingar skuli taka því sem sjálfsögðum hlut að limlesta og murka lífið úr nokkur hundruð kindum ár hvert með bifreiðum. Eru þær þó ekki ætlaðar til slíkra hluta og auk þjáninga sauðfjárins fylgir mikið eignatjón og slysahætta á fólki. Sagt hefur verið að blessuð sauðkindin hafi haldið lífi í þjóðinni um árhundruð. Það er því sérlega ómaklegt að fara svona að og má heita þjóðarskömm.

Auk tjóns á bílum og þjáninga kindanna, þá er það ömurleg lífsreynsla öllum sem lenda í að aka á kind og limlesta eða drepa. Það er ekki ósk nokkurs að ferðamenn sem til landsins koma hverfi til síns heima með slíka reynslu í farteskinu. Sama gildir um ungmennin okkar sem við sendum óreynd út í umferðina, ekki viljum við að hver ökuferð milli landshluta sé þeim sem rússnesk rúlletta, eða hvað?

Nú hefur fé verið sleppt í sumarhaga og víða er það við vegi. Í byggð er almennt orðið viðunandi ástand og búfé girt af frá vegum en flestir fjallvegir liggja hins vegar um afréttir, meira og minna ógirtir. Girðingar eru að sönnu dýrar í uppsetningu og viðhaldi. En er ekki betra að eyða fé í girðingar en tjónakostnað?

Þjóðarátaks er þörf. Ef við tökum okkur nú saman, stjórnvöld, Vegagerðin, tryggingafélögin, Bændasamtökin og sveitarfélög, þá trúi ég að hægt sé að gera byltingu og koma sauðfé að mestu af vegunum á 3 til 5 árum. Væntanlega eru til skráningar hjá tryggingafélögum og eftir þeim hægt að vinna, þ.e. byrja að girða þar sem vandinn er mestur þannig að árangur skili sér sem hraðast. Vilji er allt sem þarf, við getum ekki borið við fjárskorti endalaust.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×