Innlent

Sanddæluskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Perla á leiðinni undir yfirborð Sjávar upp úr klukkan ellefu.
Perla á leiðinni undir yfirborð Sjávar upp úr klukkan ellefu. Vísir/Vilhelm
Sanddæluskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn á ellefta tímanum í morgun eftir að leki kom að skipinu. Skipið hafði verið í slipp en var sjósett í morgun. Tveir voru um borð, en hvorugan sakan. Grunur leikur á olíuleka og hefur svæðið því verið girt af.

Þórður Bogason, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir skipið hafa sokkið á örskammri stundu. „Það kom einhver leki að og slagsíða á skipið. Eftir að skipið var komið upp að bryggjunni hélt það áfram að leka og fór í kjölfarið niður að framan. Tveir voru um borð, slökkviliðsmaður og vélstjóri, en við náðum að bjarga þeim frá borði. Þá fór skipið skyndilega að vinda upp á sig og sökk að aftan líka. Þetta tók allt mjög skamman tíma,“ segir hann. Nú sé slökkviliðið að kanna hvort olía hafi lekið.

Perla er minna sanddæluskip Björgunar sem er framleiðandi steinefna til hvers konar mannvirkjagerðar á Íslandi. Skipið er frá árinu 1979 og hefur farið í gegnum endurteknar endurbætur á líftíma sínum. Perla var nýkomin úr slipp og verið að sjósetja skipið. Engin slys urðu á fólki.

Slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang og hefur svæðið verið girt af.Vísir/Vilhelm
vísir/egill aðalsteinsson
vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×