Lífið

Áhorfendur taka þátt í flugeldasýningunni

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Sigga Soffía hafði mikinn áhuga á flugeldum áður en hún var beðin um að taka þátt í verkefninu.
Sigga Soffía hafði mikinn áhuga á flugeldum áður en hún var beðin um að taka þátt í verkefninu. Vísir/Ernir
Líkt og síðustu ár verður glæsileg flugeldasýning Vodafone á Menningarnótt til þess að enda dagskrána. Þriðja árið í röð verður Sigga Soffía listakona listrænn stjórnandi sýningarinnar en þetta verður í síðasta skiptið sem hún sinnir þessu hlutverki og mun verkið heita Stjörnubrim.

Hún ætlar að fá áhorfendur til þess að taka þátt í herlegheitunum með því að kveikja á vasaljósunum á símunum sínum á ákveðnum tímapunkti. Í haust mun hún setja upp sömu sýningu nema á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu með Íslenska Dansflokknum.


„Til þess að loka þessum þríleik sem ég hef verið með seinustu árin þá ákvað ég að hafa lokaverkið tvískipt. Annars vegar flugeldasýningu á Menningarnótt sem verður skotið upp af hjálparsveit skáta í Reykjavík og hins vegar með Íslenska Dansflokknum í Borgarleikhúsinu.“ segir Sigga en hún er að leggja lokahönd á undirbúning flugeldasýningarinnar.

Flugeldunum verður skotið upp á fimm stöðum í miðbænum en það verður líklegast í síðasta skiptið sem slíkt verður gert þar sem mikið af nýjum byggingum mun rísa þar á næstunni. „Best er að sjá sýninguna frá Arnarhóli og eftir beygjunni á Geirsgötu að bílastæðinu á höfninni. Við verðum ekki með tónlist undir eins og í fyrra heldur ætlum við að leyfa sprengjuglyminum að sjá um það.“

Yfir 1.000 bombur verða sprengdar á laugardagskvöldið auk fjölda skotkaka. Á ákveðnum tímapunkti verksins verður mynduð þoka úr flugeldum í nágrenni skotstaðarins í Hörpugrunni. Þá munu áhorfendur verða beðnir um að kveikja á flassi á snjallsímum sínum og þannig mynda stjörnubjartan himin sem verður mikið sjónarspil enda hafa yfirleitt 80.000 manns verið viðstödd sýninguna.

Sigga Soffía hafði lengi haft áhuga á flugeldum þegar hún var beðin um að stjórna sýningunni fyrir tveimur árum.

„Ég hafði verið að grúska í þessu og var búin að kynna mér þetta áður en ég var beðin um að koma í kynningu. Þegar maður velur flugeldana þá horfir maður aðallega á kraftinn í þeim. Ég horfi á litinn, tímalengdina, hraðann, hvort þeir séu harðir og agressívir og margt fleira. Þetta er voða svipað og það sem maður leitar í dönsurum þegar maður semur dans.“

Bomburnar eru allar sérinnfluttar sýningarbombur sem eru mun öflugri en þær sem seldar eru í búðum hér fyrir áramót. Sigga fylgist vel með nýjustu flugeldunum sem eru sýndir í Japan á hverju ári. Hægt verður að fylgjast með undirbúningnum á Snapchat með því að fylgja vodafoneis.



Tengdar fréttir

Hvetja til virkrar samveru á Menningarnótt

Saman Hópurinn hvetur til virkrar samveru foreldrar og barna á Menningarnótt um næstu helgi en rannsóknir hafa sýnt að hún er ein besta forvörnin gegn óreglu barna- og unglinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×