Lífið

Börnin hafa ekki fengið greitt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir, framleiðendur kvikmyndarinnar Sumarbarna.
Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir, framleiðendur kvikmyndarinnar Sumarbarna. Vísir/Ernir
„Það er í raun bara sama samkomulag í gangi og var seinasta haust, og var alltaf við foreldrana. Það sem hefur breyst eru greiðsludagsetningar og hlutirnir færðust á milli ára. Það var bæði út af persónulegu samkomulagi við einstaka foreldra og svo út af töfum á afgreiðslu fjármagns. Greiðslan fellur því til á þessu ári og það hefur aldrei neitt annað staðið til,“ segir Anna María Karlsdóttir annar framleiðandi kvikmyndarinnar Sumarbarna.  

Það vakti mikla athygli síðastliðið haust þegar í ljós kom að börn sem léku í myndinni höfðu ekki fengið greitt fyrir vinnu sína. Í samtali við Vísi í september á síðasta ári sagði Anna María að tafir á afgreiðslu fjármagns, meðal annars frá atvinnu-og nýsköpunarráðuneyti, til myndarinnar hafi verið eitthvað sem framleiðendur sáu ekki fyrir.

Anna María segir að ráðuneytið hafi enn ekki greitt út til myndarinnar en eðlilegt sé að fjármagn til kvikmynda sé að koma inn fram yfir frumsýningu.

Tökum á myndinni lauk í október 2013 og stóð til að frumsýna hana um áramótin. Aðspurð hvenær myndin verði frumsýnd segir Anna María erfitt að segja til um það.

„Myndin er enn í framleiðslu og í raun er ekkert óeðlilegt við þennan framleiðslutíma. Myndin tafðist í klippingu, það var skipt um klippara, og það tekur alltaf tíma að ganga frá þannig hlutum. Það sem er svo eftir núna er hljóð og tónlist,“ segir Anna María.

Hún segir að dagsetning frumsýningar Sumarbarna muni liggja fyrir fljótlega. Myndin er frumraun Guðrúnar Ragnarsdóttur leikstjóra við kvikmynd í fullri lengd. Heildarkostnaður við myndina er 214 milljónir en árið 2012 fékk hún 90 milljón króna styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×